Reikningur verður sendur fyrir byssunum

Viðbrögð á Íslandi við því að norski herinn léti Landhelgisgæslunni og lögreglunni MP5 vélbyssur í té komu hermálayfirvöldum í Noregi í opna skjöldu segir í frétt norska dagblaðsins Dagbladet. Ekki síður að málið hafi komið sér illa fyrir hérlend stjórnvöld.

Haft er eftir Bent-Ivan Myhre, talsmanni norska varnarmálaráðherrans, að sendur verði reikningur til Landhelgisgæslunnar fyrir þeim 250 MP5 vélbyssum sem afhentar voru í byrjun ársins. Samið var um afhendingu byssanna í desember á síðasta ári en Gæslan hefur ítrekað lagt áherslu á að enginn reikningur hafi borist vegna málsins. Þegjandi samkomulag væri um að ekki væri rukkað fyrir slíkan búnað sem Norðmenn létu Íslendingum í té. Myhre fullyrðir að alltaf hafi hins vegar staðið til að fá greitt fyrir vopnin en reikningurinn hljóðar upp á 625 þúsund norskar krónur eða umk 11,4 milljónir króna.

Dagbladet segir að samkvæmt heimildarmönnum sínum hafi aldrei verið talað um að byssurnar væru gjöf. Hins vegar hafi verið samið um að bíða með greiðslur vegna stöðu efnahagsmála á Íslandi. Þá hafi verið samið um að Íslendingar gætu dreift greiðslum fyrir byssurnar. Hins vegar hafi tíu MG3 vélbyssur og hjálmar og hlífðarvesti, sem Íslendingar hafi fengið frá Norðmönnum sumarið 2013, verið gjafir.

Myhre hafi hins vegar ekki getað staðfest að greitt hafi verið fyrir 50 MP5 vélbyssur sem Landhelgisgæslan fékk árið 2011 en þær voru verðlagðar með sama hætti og byssurnar sem afhentar voru í byrjun ársins eða 2.500 norskar krónur á byssu og 225 norskar krónur fyrir hvert skothylki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert