Starfsemi spítalans í hægagangi

Læknar eru nú margir í verkfalli.
Læknar eru nú margir í verkfalli. Rax / Ragnar Axelsson

Dagurinn á Landspítalanum hefur samkvæmt heimildum mbl.is gengið með ágætum þrátt fyrir verkfallsaðgerðir lækna á lyflækningasviði. Síðustu daga hefur hins vegar þurft að fella niður um 60 aðgerðir á spítalanum vegna verkfallsaðgerða.

Fyrstu tvo daga verkfallsins, þegar læknar á barna-, kvenna- og rannsóknarsviði lögðu niður störf, þurfti að fella niður 56 aðgerðir og í dag þurfti m.a. að fella niður hjartaþræðingar og magaspeglanir.

Þær upplýsingar fengust hjá Landspítalanum að starfsemi spítalans væri nú í algerum hægagangi. Læknar sinna hins vegar allri þeirri bráðaþjónustu sem upp kann að koma.

Ljóst er að nokkur vinna er nú framundan við að leysa úr þeirri flækju sem myndast hefur vegna þessa en endurskipuleggja þarf m.a. biðlista sem nú hafa lengst verulega vegna verkfallsaðgerða.

Vegna verkfalls lækna á lyflækningasviði eru nú innlagnir á bráðadeild mun hægari en gengur og gerist við eðlilegar aðstæður þar sem ekki er til mannskapur til þess að útskrifa þá sjúklinga sem fyrir eru. Starfsmaður spítalans sagði í samtali við mbl.is að óvenju rólegt væri nú á bráðadeild Landspítalans og á það sinn þátt í því að hlutir gangi betur fyrir sig en ella.

Sami starfsmaður benti jafnframt á að dragist verkfall lækna mjög á langinn mun það koma til með að valda miklum erfiðleikum í starfsemi spítalans.

Samninganefnd Læknafélags Íslands sat í dag árangurslausan fund í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Næsti fundur er áformaður næstkomandi mánudag klukkan 14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert