Var á leiðinni í harkið

Sigurvegarar kvöldsins með þá Benedikt og Friðrik kampakáta fyrir miðju.
Sigurvegarar kvöldsins með þá Benedikt og Friðrik kampakáta fyrir miðju.

„Þetta gæti endað skyndilega,“ segir Benedikt Erlingsson, leikstjóri Hross í oss, þegar blaðamaður mbl.is nær tali af honum og meinar þar símtalið, því hann er í þann mund að hlaupa í viðtal við sænska sjónvarpið. Benedikt er staddur í Stokkhólmi þar sem hann tók í kvöld við Kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs 2014 fyrir kvikmyndina Hross í oss ásamt framleiðanda myndarinnar, Friðriki Þór Friðrikssyni, og segir hann tilfinninguna vera hreint stórkostlega.

„Mér fannst þetta svo stórkostlegar myndir sem voru í keppninni að ég var alveg vonlaus um þetta,“ segir Benedikt. „Þetta eru rosalega stórar og flottar kvikmyndir og ég var mjög hrifinn af þeirri sænsku, Turist, sem er núna í sýningum í Bíó Paradís, og Nymphomaniac, sem er alveg stórkostleg mynd,“ segir Benedikt og bætir við að nú sé hann búinn að gera stóru strákana fúla en síðarnefndu kvikmyndinni leikstýrir einmitt hinn virti leikstjóri Lars von Trier.

Benedikt og Friðrik fá 350 þúsund danskar krónur í verðlaunafé, sem skiptist jafnt á milli þeirra, en það nemur rúmum sjö milljónum íslenskra króna. Verðlaunaféð segir Benedikt vera skattfrjálst samkvæmt reglum Norðurlandaráðs. 

„Ég mun nota verðlaunin til að fjármagna skrif mín á næstunni, sem kemur sér vel því Kvikmyndasjóður er tómur og gat það ekki,“ segir Benedikt.

 „Ég var á leiðinni að fá mér vinnu einhvers staðar og fara í harkið aftur en nú get ég haldið áfram þessari vegferð sem kvikmyndagerðarmaður, allavega í einhverja mánuði í viðbót. Maður veit aldrei hvað gerist.“

 Hross í oss fékk verðlaun Norðurlandaráðs

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert