Verkföllin skarast í næstu viku

Mun færri aðgerðir verða gerðar í næstu viku hér á …
Mun færri aðgerðir verða gerðar í næstu viku hér á landi ef samningar nást ekki hjá Skurðlæknafélagi Íslands. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Verkfallsaðgerðir lækna í Skurðlæknafélagi Íslands hefjast á miðnætti aðfaranótt þriðjudagsins 4. nóvember og standa yfir í þrjá sólarhringa. Næst verður fundað í kjaradeilu félagsins við ríkið í húsi Ríkissáttasemjara á föstudaginn kl. 14.

Ljóst er að ef ósamið verður í kjaradeilu Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands á þriðjudaginn í næstu viku munu verkföll félaganna skarast á. 

Skarast á við verkföll á fjórum sviðum

Læknar á aðgerðasviði og flæðisviði Landspítalans leggja niður störf á miðnætti aðfaranótt mánudagsins 3. nóvember. nk. og taka læknar á geðsviði og skurðlækningasviði spítalans við á miðnætti aðfaranótt miðvikudagsins 5. nóvember. Munu verkfallsaðgerðir skurðlækna í næstu viku því skarast á við verkföll lækna á þessum fjórum sviðum.

Verkfallsaðgerðir skurðlækna standa yfir í þrjá sólarhringja í senn og hafa þrjár lotur verið boðaðar. Fyrsta lotan verður eins og áður segir í næstu viku, önnur dagana 18., 19. og 20. nóvember og þriðja 9., 10. og 11. desember nk.

Síðast var fundað í kjaradeilu skurðlækna í gær kl. 16 í húsnæði Ríkissáttasemjara og var fundurinn stuttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert