Aukaspyrnurannsókn verðlaunuð

Hallur ásamt leiðbeinanda sínum við verðlaunaafhendinguna.
Hallur ásamt leiðbeinanda sínum við verðlaunaafhendinguna.

Hallur Hallson, doktorsnemi við sálfræðideild Háskóla Íslands, hlaut á dögunum verðlaun fyrir lokaverkefni sitt í meistaranámi í íþróttasálfræði frá Miami Háskóla. Verðlaunin eru á vegum stærsta íþróttasálfræðingafélags heims, The Association for Applied Sport Psychology, og voru afhent við hátíðlega athöfn í Las Vegas þar sem Hallur hélt fyrirlestur um verkefni sitt á ráðstefnu félagsins.

„Þetta er náttúrulega fyrst og fremst mjög mikill heiður,“ segir Hallur um verðlaunin. „Vonandi hjálpar þetta íþróttasálfræðinni á Íslandi að vaxa því sem grein er hún enn að slíta barnsskónum.“

Í lokaverkefni sínu bar Hallur saman tvær mismunandi tegundir af ímyndunarþjálfun og áhrif þeirra á aukaspyrnufærni. Til þess fékk hann íslenska knattspyrnumenn í lið við sig sem hann síðan skipti í hópa. „Ég var með knattspyrnulið úr Pepsídeildinni hérna heima sem ég var að skoða. Ég lét leikmenn sjá fyrir sér að þeir væru að taka aukaspyrnur og skoðaði svo hvort þeir bættu aukaspyrnugetu sína,“ segir Hallur sem segir að í ljós hafi komið að annar hópurinn hafi bætt sig meira en hinn.

„Þeir sáu fyrir sér að þeir væru að taka aukaspyrnu, svo létum við þá taka aukapyrnur í alvörunni og þá sá ég að þeir bættu sig meira, líka meira en viðmiðunarhópur sem var ekki í ímyndunarþjálfun og teygði bara aukalega.“ 

Hallur vinnur nú að áframhaldandi rannsóknum á íslensku íþróttafólki. Um þessar mundir skoðar hann augnhreyfingar markmanna en ætlunin mun vera að athuga hvort hægt sé að gera markmennina betri í að verja vítaspyrnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert