Forseti Finnlands sækir Ísland heim

Sauli Niinistö, forseti Finnlands.
Sauli Niinistö, forseti Finnlands. AFP

Sauli Niinistö, forseti Finnlands, kemur síðar í dag í heimsókn til Íslands til að taka þátt í alþjóðaþingi Arctic Circle – Hringborðs Norðurslóða. Forsetinn mun flytja ræðu á setningarfundi Arctic Circle í fyrramálið og opna sérstakan fund Arctic Circle þar sem gerð verður grein fyrir stefnu Finnlands í málefnum Norðurslóða, framtíðarsýn og umsvifum. Á þeim fundi munu einnig tala fulltrúar atvinnulífs og vísindastofnana í Finnlandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, býður forseta Finnlands til kvöldverðar að lokinni opnunarmóttöku Arctic Circle sem fram fer síðdegis í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi.

Forseti Íslands, sem er einn af stofnendum Arctic Circle, hefur á undanförnum misserum rætt þróun Hringborðsins við forseta Finnlands; hlutverk þess í að efla alþjóðlega samræðu og samstarf um framtíð Norðurslóða.

Fyrsta þing Arctic Circle var haldið í Hörpu í fyrra og þingið nú sitja um 1400 þátttakendur frá 34 löndum, ráðherrar, embættismenn, forystumenn í atvinnulífi og vísindum og fulltrúar náttúruverndarsamtaka. Dagskrá þingsins má nálgast á heimasíðunni www.ArcticCircle.org.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert