Friðhelgi skipt fyrir framburð?

Sérstakur saksóknari hefur hafnað beiðni verjenda í Stím-málinu um að afhenda gögn sem varða tvo uppljóstrara innan Glitnis. Verjandi eins sakborninga heldur því fram að sérstakur saksóknari skipti á friðhelgi fyrir framburð sem sé embættinu þóknanlegur, mikilvægt sé að dómstólar skeri úr um uppljóstraraákvæðið.

Í mál­inu er Lár­us Weld­ing ákærður ásamt Jó­hann­esi Bald­urs­syni og Þor­valdi Lúðvík Sig­ur­jóns­syni fyr­ir umboðssvik með því að hafa mis­notað aðstöðu sína og farið út fyr­ir heim­ild­ir sín­ar er hann lét Glitni lána Stím tugi millj­arða. Er hann tal­inn hafa stefnt fjár­mun­um bank­ans í veru­lega hættu.

Málflutningur fór fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag um kröfu verjenda í Stím-málinu svonefnda en þeir vilja fá afrit af bréfaskriftum sérstaks saksóknara og ríkissaksóknara um niðurfellingu tveggja uppljóstrara, Rósants Más Torfasonar og Magnúsar Pálma Örnólfssonar. Fallið var frá saksókn á hendur báðum þeirra á grundvelli svonefnds uppljóstraraákvæðis í lögum um sérstakan saksóknara.

Umrætt ákvæði er að finna í 5. gr. laga um embættið en þar segir: „Ríkissaksóknara er heimilt að ákveða, að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. og að fenginni rökstuddri tillögu frá hinum sérstaka saksóknara, að sá sem hefur frumkvæði að því að bjóða eða láta lögreglu eða saksóknara í té upplýsingar eða gögn sæti ekki ákæru þótt upplýsingarnar eða gögnin leiði líkur að broti hans sjálfs.“

Vandmeðfarin heimild

Bréfin sem verjendur vilja fá afrit að, og án þess að strikað hafi verið yfir tiltekin atriði, eru einmitt rökstudd álit sérstaks saksóknara um niðurfellingu saksóknar á hendur þeim Rósant Má, fyrrverandi yfirmanni fjárfestinganefndar Glitnis og nefndarmanni í áhættunefnd, og Magnúsi Pálma, fyrrverandi forstöðumanni gjaldeyrismiðlunar Glitnis. Ennfremur krefjast verjendur þess að fá upplýsingaskýrslu sérstaks saksóknara vegna málsins.

„Það sem er sérstakt við þetta mál og aðgreinir það frá öðrum málum er að það reynir í fyrsta skipti með einhverjum hætti á beitingu 5. gr. laga um embætti sérstaks saksóknara,“ sagði Reimar Pétursson, verjandi Jóhannesar. Hann benti á að um sé að ræða heimild sem ekki sé til í nágrannalöndunum og að í frumvarpi um sérstakan saksóknara hafi sérstaklega séu sett fram ströng skilyrði fyrir beitingu heimildarinnar og að dómstólar eigi að hafa síðasta orðið. 

Reimar benti einnig á að í nefndaráliti komi fram að heimildin sé vandmeðfarin og sérstaklega sé tekið fram að rangar sakagiftir geti ekki leitt til refsileysis. Þá komi fram í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu að gæta verði varfærni þegar að þessari heimild komi, enda geti verið spilað á hana í ávinnings- eða hefndarskyni. Þá áhættu megi ekki vanmeta. „Þarna er gert ráð fyrir því, þar sem heimildin er fyrir hendi, að farið sé sérstaklega varlega þegar metnir eru framburðir þeirra sem hafa aflað sér friðhelgi með einhverskonar samningum. Fengið friðhelgi í skiptum fyrir einhverskonar skýrslu.“

Þráspurður þar til rétt svör fengust

Hann sagði ljóst að þeir Rósant og Magnús Pálmi njóti þess ávinnings að fallið hafi verið frá saksókn gegn þeim fyrir upplýsingar sem þeir hafa veitt. „Með kröfum skjólstæðings míns er leitast við að varpa ítarlegu og nákvæmu ljósi á það við hvaða aðstæður, hvaða rök og hvað það er í framburði þessara manna sem leitt hefur til þess að þeim hefur verið veitt friðhelgi.“

Í því ljósi nefndi Reimar að mikilvægt sé fyrir dóminn að taka til skoðunar hvort umræddar ívilnanir samræmist 5. gr. laga um sérstakan saksóknara og hvort þær séu yfirleitt lögmætar. „Þá þarf að meta hver áhrif þessara ákvarðana og tilvist þessarar heimildar hefur haft á trúverðugleika framburða þessara manna.“

Reimar nefndi dæmi úr skýrslum yfir Magnúsi Pálma og sagði augljóst að engin heimild hafi verið fyrir því að falla frá saksókn á hendur honum. Framburður hans sé ótrúverðugur og hafi breyst í veigamiklum atriðum á meðan rannsókn stóð. Síðustu breytingar hans hafi ennfremur augljóslega verið setta fram til að þóknast ákæruvaldinu. Magnús hafi verið þráspurður um tiltekin atriði, hafi í fyrstu játað þau á sig en þar sem rannsakendur sættu sig ekki við svörin hafi hann einfaldlega svarað eins og þeir vildu. „Þegar svarið er aldrei nógu gott hlýtur að fara myndast einhver tilfinning um að hægt sé að setja eitthvað annað og málinu sé þá lokið.“

Að endingu sagði Reimar að mikilvægt væri fyrir dóminn að fá heildstæða mynd af því hvernig staðið sé að „þessum skiptum á friðhelgi fyrir framburð“ hjá sérstökum saksóknara. „Það er augljóst að þessi framburður sem þarna er tryggður er algjörlega þýðingarlaus. Maðurinn er tvísaga. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að veita þessum manni friðhelgi?“

Sönnunarfærslan fyrir dómi 

Hinum megin við borðið var Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara. Hann sagði að það sem yfirstrikað sé í bréfaskriftum sérstaks saksóknara og ríkissaksóknara hafi einfaldlega ekkert með réttindi sakborninga í þessu máli að gera. Það nýtist þeim ekki til að halda uppi vörnum og varði þá yfirleitt ekkert enda sé um að ræða ákvörðun um niðurfellingu saksóknar í öðrum málum einnig. „Ég get á engan hátt séð hvernig ákærðu verði á betur hátt settir með þessar upplýsingar.“

Hann sagði að þarna væri um að ræða upplýsingar um einkahagi þeirra Rósants og Magnúsar Pálma gagnvart lögreglu og einnig upplýsingar um starfshætti lögreglu sem eðlilegt sé að fari leynt. Almannahagsmunir þurfi að vera verulegir og ríkari en hagsmunir Rósants og Magnúsar Pálma til þess aflétta trúnaði af upplýsingunum.

Hólmsteinn Gauti sagði einnig að þarna væri ekki um að ræða sönnunargögn um atvik málsins né heldur málssóknarskjöl og því sé ekki skylt að leggja gögnin fram. „Rauði þráðurinn hefur verið sá að um sé að ræða innri vinnubrögð embættisins. Þetta teljast ekki sönnunargögn og réttur til afhendingar þeirra getur ekki skapast.“

Ennfremur sagði Hólmsteinn Gauti að varnir sakborninga eigi að miðast við sönnunargögn. Þá geti verjendur spurt umrædda menn spjörunum úr ef til aðalmeðferðar kemur í málinu og sé það dómara að meta framburð þeirra. Sönnunarfærslan fari því fram fyrir dómi. 

Málið var að málflutningi loknum tekið til úrskurðar dómara og verður úrskurður kveðinn upp á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert