Gengur vel þrátt fyrir verkfall

Verkfallsaðgerðum lækna í Læknafélagi Íslands lýkur í bili í kvöld. …
Verkfallsaðgerðum lækna í Læknafélagi Íslands lýkur í bili í kvöld. Þær hefjast aftur á miðnætti aðfaranótt mánudags. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Almenningur virðist fylgjast vel með fréttum af verkfallsaðgerðum lækna og leitar ekki til spítalans nema að vel athuguðu máli í þessari viku. Starfsemi spítalans hefur gengið vel í dag þrátt fyrir verkfall lækna á lyflækningasviði spítalans. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Landspítalanum.

Á lyflækningasviði starfa 188 læknar í mismunandi stöðugildum. Alls munu 28 læknar sinna bráðaþjónustu verkfallsdagana en 160 verða í verkfalli. Nokkrum tugum aðgerða hefur verið frestað á spítalanum í vikunni og þá hafa göngudeildir einnig verið lokaðar. 

Á miðnætti í kvöld lýkur verkfallsaðgerðum lækna í Læknafélagi Íslands í bili, en þær hefjast á ný á miðnætti aðfaranótt mánudags þegar læknar á aðgerða- og flæðisviði sjúkrahússins leggja niður störf.

Undir aðgerðasvið heyrir meðal annars gjörgæsla spítalans en bráðamóttakan heyrir aftur á móti undir flæðisvið. Því þarf varla að taka fram að verkfallsaðgerðir lækna munu hafa nokkur áhrif á starfssemi sjúkrahússins eftir helgi. Þá hafa skurðlæknar boðað verkfall í þrjá sólarhringja frá og með næsta þriðjudegi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert