Gert ráð fyrir óbreyttum rekstri

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. www.mats.is

Frumvarp að fjárhagsáætlun fyrir árin 2015 til 2018 var lagt fram til fyrri umræðu í Bæjastjórn Hafnarfjarðar í gær. Frumvarpið eins og það var lagt fram gerir ráð fyrir að mestu óbreyttum rekstri frá því sem verið hefur á yfirstandandi ári að teknu tilliti til verðlagshækkana og kostnaðarhækkana vegna kjarasamninga.  

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ kemur fram að ekki sé gert ráð fyrir gjaldskráhækkunum nema hjá hafnarsjóði. Áfram verður lögð áhersla á hátt þjónustustig, aukna rafræna þjónustu, tæknivæðingu leik- og grunnskóla auk þess sem leitað verður leiða til að skapa öllum atvinnuleitendum á fjárhagsstyrk tækifæri til endurkomu á vinnumarkað. Verður það gert með tilboði um tímabundið hlutastarf samhliða virkum stuðningi í gegnum „Áfram“ verkefnið.

„Framundan er vinna sem ætlað er að skapa umhverfi og vettvang til að gera enn betur í rekstri og þjónustu Hafnarfjarðarbæjar. Vinna sem krefst samvinnu og samstarfs okkar sem koma að henni, vinna sem mun skila okkur öflugu sveitarfélagi og koma okkur í fremstu röð sveitarfélaga á landinu,“ er haft eftir Haraldi L. Haraldssyni bæjarstjóra í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert