Mengunin kom á óvart

Mynd frá Akureyri eins og sést er bláleit móða yfir
Mynd frá Akureyri eins og sést er bláleit móða yfir Ljósmynd Inga Eydal

Mjög hefur dregið úr mengun víða á Norðurlandi þrátt fyrir að styrkur brennisteinstvíoxíðs sé enn mjög hátt á Akureyri. Ekki eru mælar alls staðar og er fólk hvatt til að tilkynna um mengun verði það hennar vart.

Samkvæmt upplýsingum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra eru mengunarmælar ekki á öllum þéttbýlisstöðum landsins en á einhverjum stöðum hafa verið settir upp færanlegir mælar. Mikilvægt sé að fólk láti vita ef það finnur fyrir menguninni en hægt er að senda tilkynningu hér.

Eins er hægt að hafa samband við Umhverfisstofnun og þar eru yfirlit yfir loftgæði á þeim stöðum þar sem mælar eru.

Mengunin í Eyjafirði og Skagafirði kom í raun á óvart þar sem hún er mun meiri á þessum slóðum heldur en spá Veðurstofu Íslands hljóðaði um. Þar var Stykkishólmur inni á mengunarsvæðinu en ekki Akureyri. Gefið hefur verið út nýtt mengunarkort á vef Veðurstofunnar og er nú Akureyri þar inni enda mengunin mest þar eða tæplega 3.500 míkrógrömm á rúmmetra.

Atvinnurekandi á Akureyri hafði samband við mbl.is og sagði að misvísandi upplýsingar kæmu fram frá almannavörnum og heilbrigðiseftirliti bæjarins um hvað mætti gera. Í sms frá almannavörnum er fólk hvatt til að halda sig innandyra en samkvæmt skilgreiningu frá Umhverfisstofnun og landlæknisembættinu þá eru heilbrigðir einstaklingar beðnir um að forðast áreynslu utandyra. Þeir sem hafa tök á haldi sig innandyra, loki gluggum og slökkvi á loftræstingu. 

Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum hefði kannski mátt orða skilaboðin á annan hátt en þetta snúist um að koma skilaboðum á framfæri við alla, bæði heilbrigða sem og þá sem eru með sjúkdóma í öndunarfærum.

Mengunarspá dagsins fyrri útgáfan
Mengunarspá dagsins fyrri útgáfan Af vef Veðurstofu Íslands
Mengunarspá dagsins - nýrri útgáfa
Mengunarspá dagsins - nýrri útgáfa Af vef Veðurstofu Íslands
Þessi mynd er tekin yfir Pollinn á Akureyri í morgun
Þessi mynd er tekin yfir Pollinn á Akureyri í morgun Ljósmynd Anna Signý
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert