Miðla greiðslum milli vina

„Auðvelt er að deila reikningnum niður á marga og fínstilla …
„Auðvelt er að deila reikningnum niður á marga og fínstilla hvað hver og einn skuldar.“ Trausti Sæmundsson, Arnar Jónsson, Gunnar Helgi Gunnsteinsson og Jón Dal Kristbjörnson eru mennirnir á bak við Sway. mbl.is/Golli

Margar bestu viðskiptahugmyndirnar verða til þegar frumkvöðlar reyna að leysa vandamál sem þeir standa sjálfir frammi fyrir. Þannig kviknaði hugmyndin að Sway (www.swayapp.is) þegar stofnendurnir ráku sig á hversu erfitt getur verið að halda utan um peninga og útgjöld innan vinahópa.

„Þetta er vandamál sem flestir kannast við: Hópur fólks; vinir, ættingjar, skólafélagar eða samstarfsmenn leggja út fyrir einhverju í sameiningu. Einhver einn tekur að sér að greiða fyrir vöruna eða þjónustuna og þarf svo að innheimta hjá öllum hinum það sem þeir skulda. Jafnvel í einföldustu tilvikum reynist þetta oft hægara sagt en gert,“ segir Gunnar Helgi Gunnsteinsson.

Gunnar stofnaði Sway ásamt Arnari Jónssyni og Jóni Dal Kristbjörnssyni. Auk þeirra reiðir fyrirtækið sig á krafta Trausta Sæmundssonar forritara. Sway er til húsa í Innovation House á Eiðistorgi og tók á dögunum þátt í Seed Forum Iceland.

Ekkert Excel milli vina

Gunnar lýsir Sway sem greiðsluforriti með ákveðna eiginleika samfélagsvefs.

„Í dag reiðir fólk sig á flóknar og seinlegar aðferðir. Í tilviki vinnufélaganna sem t.d. leggja í púkk fyrir gjöf þarf helst einhver einn að halda Excel-skjal um hver hefur greitt og hver skuldar hvað. Hann þarf að senda út pósta til að minna fólk á að greiða og svo vakta stöðuna á heimabankanum ef fólk millifærir. Þeir sem greiða þurfa sömuleiðis að hafa töluvert fyrir því að t.d. fá reikningsnúmer og kennitölu, skrá sig inn í heimabankann og síðast en ekki síst gleyma ekki að greiða í amstri dagsins.“

Gunnar segir að þannig geti sameiginleg útgjöld fljótt orðið flókin og leiðinleg. Eins sjálfsagt og það er að fólk sem þekkist vel deili með sér ýmsum útgjöldum þá geti verið óskemmtileg upplifun fyrir alla að gera upp peningahliðina.

Með Sway-snjallsímaforritinu er hægt að leysa þennan vanda nánast með einum smelli. Sway veitir þægilega yfirsýn og auðveldar greiðslur hvort sem í hlut á vinahópurinn sem fór saman út að borða, ættingjarnir sem vilja sameinast um að kaupa gjöf handa fermingarbarninu, meðleigjendurnir sem deila leigunni, eða fótboltaliðið sem þarf að leggja í púkk fyrir rútuferð á næsta leik.

Gunnar segir notendur fyrst tengja forritið við debet- eða kreditkort og bankareikning. Ef lagt er út fyrir einhverju er tekin mynd af vörunni eða viðburðinum, og síðan er hægt að finna vinina í gegnum önnur forrit í símanum, s.s. Facebook eða símaskrána, og senda þeim meldingu um hvað þeir skulda. „Auðvelt er að deila reikningnum niður á marga og fínstilla hvað hver og einn skuldar, ef t.d. einn vinurinn fékk sér humar en hinn hamborgara. Mjög lág álagning er tekin af greiðslum inn í kerfið, en engar þóknanir fyrir greiðslur ef inneign er notuð né heldur fyrir millifærslur úr kerfinu og aftur inn á bankabók.“

Skemmtilegri greiðslur

Að sögn Gunnars er Sway ekki fyrsta forritið sem reynir að leysa þann vanda sem skapast þegar margir þurfa að deila með sér útgjöldum. Nálgun Sway við þessar „vinagreiðslur“ er samt á margan hátt einstök og gerir ferlið bæði notendavænna og skilvirkara. „Það gefur Sway ekki síst forskot á þessum markaði að við getum gert fólki kleift að tala hvað við annað um greiðslur á skemmtilegan og myndrænan hátt.“

Viðskiptaáætlunin gerir ráð fyrir að reyna kerfið á Íslandi áður en haldið er á erlenda markaði. Segir Gunnar að byrjað verði á að einblína á aldurshópinn frá fimmtán til fertugs enda hópur sem er duglegur að deila ýmsum útgjöldum með vinum, en þarf um leið að vakta vel hverja krónu.

Margir áhugaverðir möguleikar eru síðan í stöðunni ef Sway tekst að ná góðri fótfestu á íslenska markaðinum eða erlendis. „Er t.d. gaman að velta fyrir sér möguleikunum ef seljendur vöru og þjónustu fara að líta á notendur Sway sem eftirsóknarverðan markhóp. Við erum líka opnir fyrir því að fara „Meniga-leiðina“ með þetta forrit, þar sem tekjurnar koma í gegnum samninga við bankana sem bjóða viðskiptavinum sínum forritið sem viðbót við aðra fjármálaþjónustu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert