Mikil mengun í Skagafirði

Sauðárkrókur.
Sauðárkrókur. Sigurður Bogi Sævarsson

Styrkur  brennisteinsdíoxíðs (SO2) fer nú hratt upp á við í Skagafirði í og hefur mælst þar 1.7 ppm sem jafngildir 5.100 míkrógrömmum á rúmmetra. Öllum er ráðlagt að halda sig innandyra, loka gluggum og hækka í ofnum. Íbúar eru beðnir að fylgjast vel með mælingum.

Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að vegna bilunar í gagnaflutningi séu ekki birtar upplýsingar um mengun á Akureyri og fleiri stöðum á Norðausturlandi. Samkvæmt upplýsingum frá íbúum á Akureyri sýnir mælirinn þar 0 þannig að hann hljóti að vera bilaður því bláleit slikja sé yfir bænum.

Óskar G. Björnsson, skólastjóri í grunnskólanum Árskóla á Sauðárkróki, er nemendum haldið inni í dag og ekki farið út í frímínútur né heldur verður kennt úti, svo sem sund.

Aðspurður um hvort foreldrar hafi verið beðnir um að keyra börn sín til skóla í morgun segir hann að sms frá almannavörnum hafi borist það seint að flestir hafi verið farnir af stað en hann haldi að flestir hafi keyrt börn sín vegna þess að mengunin fari ekki fram hjá neinum. Þetta sé í fyrsta skipti sem Sauðkrækingar verði jafn áþreifanlega varir við mengun frá eldgosinu í Holuhrauni. 

Einnig mikil mengun í Stykkishólmi

Einnig hefur mælst aukinn styrkur í Stykkishólmi en þar hefur mælst 0.9 ppm en það eru um 2700 míkrógrömm á rúmmetra. 

Íbúar á svæðinu eru hvattir til þess að fylgjast vel með frekari fréttum.

Veðurstofan gerir ráð fyrir því í dag að gasmengunin verði vestur af eldstöðvunum eða frá Reykjanesi í suðri, vestur á Barðaströnd og norður að Húnaflóa. Má því búast við auknum styrk brennisteinsdíoxíðs í lofti á því svæði, samkvæmt upplýsingum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert