Slökktu á loftræstingu Sjúkrahúss Akureyrar

Gluggum var lokað, hækkað var í ofnum og slökkt á …
Gluggum var lokað, hækkað var í ofnum og slökkt á loftræstingu. mbl.is/Skapti

Viðbragðsteymi Sjúkrahússins á Akureyri kom saman í morgun eftir að fregnir bárust af aukinni brennisteinsdíoxíðmengun í bænum. Mengunin var 4000 míkrógrömm á rúmmetra í morgun og liggur bláleit móða yfir svæðinu.

Að sögn Sigurðar E. Sigurðssonar, framkvæmdastjóra lækninga, kom teymið saman eftir að ljóst var að mengunin var komin yfir ákveðin mörk.

Send voru út skilaboð þar sem fram kom að loka ætti öllum gluggum sjúkrahússins, hækka í ofnum og þá var einnig slökkt á loftræstingu.

Loftgæðamælir bæjarins er heldur neðar í bænum en sjúkrahúsið og því óskaði viðbragðsteymið eftir færanlegum mæli svo hægt sé að sjá nákvæmlega hver mengunin er við húsnæði sjúkrahússins.

Gera má ráð fyrir að nokkuð muni kólna í þeim hluta hússins þar sem slökkva þurfti á loftræstingu en að sögn Sigurðar er verið að bregðast við því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert