Tafir á útburði vegna mengunar

Starfsmenn Póstsins á Akureyri þurftu frá að hverfa vegna þeirrar miklu gosmengunar sem mælst hefur í bænum í dag. Styrkur brennisteinsdíoxíðs (SO2) mælist nú á bilinu 3.000 til 4.000µg/​m³.

Mest fór mengunin á Akureyri upp í 6.000µg/​m³ í dag.

Í tilkynningu sem Pósturinn birti á Facebook fyrir stundu kemur fram að ekki hafi tekist að klára útburð í Naustahverfi, Síðuhverfi og Holtahverfi vegna mengunar.

Þá var einnig ekki hægt að klára útkeyrslu á pósti í öll fyrirtæki sem staðsett eru í Nesjahverfi, Furuvöllum og nágrenni.

Reynt verður eftir fremsta megni að fara með útkeyrslupakka til einstaklinga í kvöld milli klukkan 17 og 21.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert