„Ég var bara að kafna“

Konan neitaði að yfirgefa bifreiðina.
Konan neitaði að yfirgefa bifreiðina. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Ég var bara að kafna og þetta var algjör sjálfsvörn,“ sagði tvítug kona í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en hún er ákærð fyrir að hafa klipið og bitið lögreglukonu 15. nóvember í fyrra. Konan neitar sök. Aðalmeðferðin hófst í dag en henni þurfti að fresta þar til byrjun desember vegna forfalla lögreglumanna sem áttu að bera vitni.

Málsatvik voru með þeim hætti að lögreglan stöðvaði bifreið í Stekkjarbakka í Reykjavík vegna gruns um að ökumaðurinn væri undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Sú grunur reynist á rökum reistur. Konan var ekki undir stýri heldur farþegi og þrátt fyrir að ekki stæði til að handtaka hana reyndist lögreglumönnum furðu erfitt að ná henni úr bílnum. „Við höfðum gefið henni ítrekuð fyrirmæli um að fara af vettvangi, sem hún gerði ekki. Hún festi sig inni í bílnum með því að krækja fótunum í höfuðpúðana,“ sagði lögreglukonan sem varð fyrir hinni meintu árás.

Sökum þessa færðu lögreglumennirnir konuna úr bílnum með valdi, sneru niður í jörðina og handtóku hana. „Hún barðist mikið um. Við lögðum hana að lögreglubílnum en hún losnaði úr handjárnunum og þá kleip hún mig og beit í úlnliðinn á mér.“

Spurð nánar út í það hvernig konunni tókst að losa sig úr handjárnunum sagði lögreglukonan: „Hún er með mjög granna úlnliði og náði að smokra sér úr járnunum.“ Hún hafnaði því alfarið að þetta hefði verið einhverskonar neyðarvörn eða að hún hefði verið að kafna. „Nei, þetta var einbeittur vilji til að hefna sín á mér.“

Lögreglukonan var klædd í síðermabol og ullarpeysu þegar hún var bitin. „Það var ekki rof á húð en ég fann fyrir því og það kom mar.“

Mundi atvik málsins frekar illa

Sem áður segir þá neitar konan sök. Hún kvaðst hins vegar lítið muna eftir atvikum. „Það sem ég man er að við vorum að keyra, ég og vinkona mín. Síðan er ég rifin út úr bílnum þegar við vorum stoppaðar. Svo man ég ekki meira. Ég man ekki eftir að hafa bitið hana en þegar maður er að kafna þá bregst maður einhvern veginn við. Hún var með mig í kverkataki og svo leið ég út af.“

Konan kannaðist ekki við hafa verið á umræddum tímapunkti æst eða að hafa sýnt mótþróa. Spurð hvort hún hefði verið ölvuð sagði hún: „Ég man þetta frekar illa.“

Læknir sem gaf skýrslu sagði að bit af þessu tagi geti alltaf verið hættuleg. „Ef þau ná í gegnum húð þá er hætta á sýkingu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert