Laun kennara í FÍH hækka um 7,5%

Tónlistarkennsla. Myndin er úr safni.
Tónlistarkennsla. Myndin er úr safni. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

 Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) hefur undirritað nýjan kjarasamning við Félag íslenskra hljómlistarmanna. Samningurinn gildir frá 1. mars 2014 til 31. júlí 2015. Laun tónlistarkennara hækka í tveimur áföngum á samningstímabilinu, annars vegar um 3,2% frá 1. mars 2014 og um 4,3% frá 1. nóvember 2014. Kostnaðarmat samningsins er 7,5%.

Aðilar eru sammála um að kjarasamningurinn þurfi að taka breytingum sem styðji við framþróun í starfsháttum tónlistarskóla. Með samningnum fylgir því viðræðuáætlun og aðgerðaáætlun um sameiginlega vinnu aðila við heildarendurmat á kjarasamningnum. Skipaður verður starfshópur með fulltrúum beggja aðila, sem starfa mun til 15. apríl 2014, þegar samninganefndir aðila hefja kjarasamningsgerð.

Kjarasamningurinn var samþykktur með 78,4% greiddra atkvæða, en 82% félagsmanna tók þátt í atkvæðagreiðslunni.

Með samningnum við FÍH er verið að hækka laun tónlistarkennara með sambærilegum hætti og laun grunnskólakennara fram til 1. maí 2015, segir í frétt á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Enn er ósamið við Félag tónlistarskólakennara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert