Tónlistarkennarar teknir út fyrir sviga

Frá baráttufundi í Hörpu.
Frá baráttufundi í Hörpu. mbl.is/Golli

 „Við erum í þessum töluðum orðum að ganga út úr húsnæði Ríkissáttasemjara. Við erum búin að vera hér á fundi síðan klukkan þrjú í dag og við lögðum fram hugmyndir sem við töldum geta leitt okkur á sporið en þeim var ekki beinlínis tekið fagnandi,“ segir Sigrún Grendal, formaður Félags tónlistarskólakennara, um samningafund í kjaradeilu tónlistarskólakennara sem fram fór í dag.

Hún segir að ríkissáttasemjari muni boða til fundar í síðasta lagi næstkomandi þriðjudag en að því hafi verið beint til beggja aðila að leita lausna og að fundað verði fyrr hafi einhver sáttaboð fram að færa.

„Ég hef þá tilfinningu og hef haft allar þessar kjarasamningaviðræður sem bráðum eru búnar að standa yfir í ár að skilaboðin sem þessi samninganefnd hefur séu að taka eigi tónlistarskólakennara og stjórnendur tónlistarskóla út fyrir sviga í skólakerfinu og setja okkur skör lægra,“ segir Sigrún.

„Þess vegna erum við í verkfalli. Við skiljum þetta ekki og við munum ekki taka þessu þegjandi og hljóðalaust. Þetta er í þriðja skiptið sem á að draga okkur í sundur og ef það tekst lít ég svo á að það sé upphafið að endalokunum á því að tónlistarskólakerfið á Íslandi sé eitthvað sem horft er til á heimsvísu.“

Sigrún Grendal
Sigrún Grendal mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert