Biðlisti eftir því að taka þátt

Það var mikið stuð á Hressleikunum í morgun og ekki …
Það var mikið stuð á Hressleikunum í morgun og ekki spillir fyrir að málefnið er gott. mbl.is/Ómar Óskarsson

Yfir milljón safnaðist á Hressleikunum í morgun en allt söfnunarfé rennur til fimm manna fjölskyldu í Hafnarfirðinum en yngsti fjölskyldumeðlimurinn er með helftarlömun. Löngu uppselt var á leikana og var langur biðlisti eftir að fá að vera með og leggja sitt af mörkum, segir Linda Hilmarsdóttir, fram­kvæmd­astjóri lík­ams­rækt­ar­stöðvar­inn­ar Hress í Hafnarfirði.

Þetta var í sjötta skiptið sem Hressleikarnir eru haldnir en Hressleikarnir eru góðgerðarleikar og stórt æfingapartí þar sem 250 manns æfa saman í tvo tíma í 15 mínútna lotum og þjálfarar Hress stjórna. 

Aðgangur að leikunum var 2.500 krónur og starfsfólk Hress gefur vinnuna sína þennan dag í söfnunina. Einnig er línuhappdrætti rekið á báðum stöðvum Hress og sérstakir hressleikadrykkir seldir. Að sögn Lindu liggur ekki nákvæmlega fyrir hversu há fjárhæð safnaðist þar sem enn er verið að selja drykki og happdrættismiða en hún er alsæl með hvernig tókst til. 

Það er fimm manna fjölskylda úr Hafnarfirðinum sem fær styrkinn ár. 

„Fjölskyldan samanstendur af Hildi Brynju (móðir) og Erlendi (faðir). Þau eiga Emil Snæ 9 ára, Ívar Elí 6 ára og Írisi Emblu 3 ára. Íris Embla greindist með ólæknandi heila- og taugasjúkdóm sex mánaða. Auk hans er hún með CP (helftarlömun), er flogaveik og tölvuvert sjónskert. Hún er mjög hreyfihömluð, bundin við kerru/hjólastól og þarf aðstoð við allar daglegar þarfir. Spítalaheimsóknir eru tíðar og Hildur Brynja hefur ekki getað starfað utan heimilisins vegna þessa,“ segir á vef Hress.

Púla til styrktar langveiku barni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert