Stormviðvörun á Vestfjörðum

Það er ekkert sérstaklega spennandi veðurspá fyrir daginn í dag …
Það er ekkert sérstaklega spennandi veðurspá fyrir daginn í dag og sérstaklega ekki á Vestfjörðum mbl.is/Golli

Búist er við stormi (meðalvindhraða meira en 20 m/s) á Vestfjörðum í dag, en norðvestan og vestantil á morgun.

Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofu Íslands verður úrkoman í dag yfirleitt í formi rigningar í dag, en kólnar NV-til í kvöld og slydda eða snjókoma þar í nótt og á morgun.

Bætt við klukkan 7:25

„Á Suðurlandi eru vegir greiðfærir.

Á Vesturlandi eru vegir að mestu greiðfærir þó er hálka á Holtavörðuheiði og Laxárdalsheiði.

Hálka eða hálkublettir er á öllum helstu fjallvegum á Vestfjörðum. Ófært er á Hrafnseyrarheiði en þæfingsfærð á Dynjandiheiði. Þæfingsfærð er á leiðinni norður í Árneshrepp á Ströndum.

Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum vegum.

Hálka eða hálkublettir eru á fjallvegum á Austurlandi. Ófært á Vatnsskarði eystra. Autt er með suðausturströndinni,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Austan 5-10 m/s, en norðaustan 15-23 á Vestfjörðum. Rigning með köflum víða um land, Hiti 2 til 8 stig. Hvessir heldur og kólnar NV-til í kvöld og nótt. Norðaustan 15-23 á morgun, en 8-13 um landið S- og A-vert. Slydda eða snjókoma NV- og N-lands, rigning fyrir austan, en stöku skúrir á S-verðu landinu.

Á sunnudag:
Norðaustan 15-23 m/s, en hægari vindur S- og A-lands fram á kvöld. Slydda eða snjókoma NV- og N-lands, rigning fyrir austan, en stöku skúrir á S-verðu landinu. Hiti 0 til 5 stig, en um eða undir frostmarki á Vestfjörðum og í innsveitum fyrir norðan.

Á mánudag:
Minnkandi norðanátt, 5-13 m/s síðdegis. Dálítil él á N- og A-landi, en bjartviðri S- og V-til. Kólnandi veður, frost 0 til 8 stig um kvöldið, mest í innsveitum.

Á þriðjudag:
Hæg breytileg átt og víða léttskýjað. Sunnan 3-8 S-lands undir kvöld og stöku él. Frost 0 til 12 stig, mest í innsveitum fyrir norðan.

Á miðvikudag:
Vaxandi suðaustanátt með slyddu eða rigningu og hlýnandi veðri, en þurrt á N- og A-landi.

Á fimmtudag:
Stíf austanátt með rigningu, mest á SA-landi og Austfjörðum. Hiti 3 til 9 stig.

Á föstudag:
Austan- og norðaustanátt með úrkomu víða um land og hita 1 til 6 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert