Grænlensk kvikmyndahátíð í Reykjavík

Skjáskot úr einni kvikmynd af þeim tuttugu sem sýndar eru …
Skjáskot úr einni kvikmynd af þeim tuttugu sem sýndar eru á hátíðinni Greenland Eyes. Greenland Eyes

Grænlenska kvikmyndahátíðin Greenland Eyes er í fullum gangi í Norræna húsinu um þessar mundir en hátíðin verður sýnd á öllum norðurlöndunum. Á hátíðinni eru sýndar 20 myndir frá Grænlandi og segir Ivalo Frank, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, að myndirnar séu af öllum toga, teiknimyndir, leiknar myndir, heimildarmyndir og stuttmyndir.

„Þetta byrjaði allt árið 2012, í Berlín. Þetta gekk svo vel þar að við ákváðum að fara með hátíðina til allra norðurlandanna. Nú þegar hefur hátíðin verið haldin í Danmörku, Færeyjum og í Grænlandi. Núna erum við í Reykjavík og svo förum við til Svíþjóðar, Finnlands og Noregs,“ segir Ivalo en hún er fædd í Nuuk en fluttist til Þýskalands ung að aldri þar sem hún hefur verið búsett síðan.

Hátíðin byrjaði á fimmtudaginn síðastliðin og eru tvær kvikmyndasýningar á hverjum degi, ein klukkan 18 og önnur klukkan 20, í Norræna húsinu. Ókeypis er inn á hátíðina.

Ivalo segir fjölbreytta flóru kvikmynda vera á sýningunni með það að markmiði að sýna Grænland frá sem flestum sjónarhornum þar sem takmarkaðar upplýsingar er að finna um Grænland sem geri það að verkum að fólk hafi ákveðnar hugmyndir um Grænlendinga sem byggir á fáfræði, en það hafi einmitt verið kveikjan að hátíðinni, að brjóta upp þá staðalímynd sem umheimurinn hefur á grænlendingum.

Hátíðinni lýkur á þriðjudag þegar hljómsveitirnar Samaris frá íslandi og Nive Nielsen & the Deer Children frá Grænlandi leiða saman hesta sína og halda sameiginlega tónleika, einnig í Norræna húsinu. Ivalo segir það vera part af hátíðinni, að hljómsveit frá viðkomandi stað og hljómsveit frá Grænlandi haldi sameiginlega tónleika.

Aðspurð hvaða myndir séu gjaldgengar á hátíðinni segir hún eina skilyrðið vera að þær séu teknar á Grænlandi og því séu myndirnar ekki eingöngu eftir Grænlendinga.

„Við erum ekki þjóðernissinnuð í þeirri meiningu að við krefjumst þess að Grænlendingar hafi gert myndirnar,“ segir Ivalo en bætir við að fyrir nokkrum árum hófu Grænlendingar að gera myndir um landið sitt og það sé áhugavert að sjá hvernig þeir vilja sýna landið sitt í kvikmyndum.

Fjallað er um hverja mynd fyrir sýningu hennar og segir Ivalo að einnig sé reynt að fljúga aðstandendum myndanna á hátíðina þar sem gestir geta fengið svör við spurningum sínum.

Samhliða kvikmyndasýningunum er listasýning í kjallara Norræna hússins eftir tvo unga listamenn frá Grænlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert