Höfðar mál gegn ríkisstjórninni

Troy Jónsson
Troy Jónsson mbl.is/Ómar Óskarsson

Troy Jónsson, 27 ára, hefur ákveðið að höfða mál gegn ríkisstjórn Íslands fyrir að meina samkynhneigðum að gefa blóð þrátt fyrir að heilbrigðisyfirvöld mæli með því að banninu verði aflétt.

Rætt við er við Troy í vefnum Gaynewsnetwork og kemur þar fram að bannið feli í sér mismunun og brot á réttindum samkynhneigðra. Ekki sé tekið tillit til áhættuþátta varðandi HIV smit eins og áhættusamt kynlíf og sprautufíkn.

<a href="http://gaynewsnetwork.com.au/news/world/gay-man-sues-icelandic-government-over-blood-donation-ban-15596.html" target="_blank">Í viðtalinu við GNN</a> segir Troy að það sé ekkert sem bendi til þess að blóð samkynhneigðra á Íslandi sé hættulegra en annað blóð. Vandinn sé sá að heimurinn hafi verið blekktur til þess að trúa því að alnæmi og HIV séu sjúkdómar samkynhneigðra. Það sé aftur á móti lygi og þessir sjúkdómar tengist kynhneigð ekki á nokkurn hátt.

 Troy og lögfræðingur hans, Sævar Þór Jónsson, segja að þessar reglur hafi verið settar þegar lítið sem ekkert var vitað um HIV smit. Troy segir að fjölmargir standi með sér í baráttunni en fleiri hafi ekki viljað taka þátt í málssókninni. Annað hvort séu þeir hræddir við að koma fram eða þá þeir vilja ekki eyða tíma sínum í málaferli. 

„Ég hef barist fyrir réttindum samkynhneigðra í Bandaríkjunum um langt skeið og það hvarflaði að mér að margir sjá Ísland í fylkingarbroddi þegar kemur að jafnrétti, sem er rétt á vissan hátt. En á sama tíma er stærsta viðfangsefnið sem við stöndum frammi fyrir núna að samkynhneigðum er meinað að gefa blóð og ég tel að þetta sé mjög ögrandi mál sem einhver þarf að takast á við þannig að við getum verið viss um rétt okkar hér. Og ég er reiðubúinn að gera það,“ sagði Troy í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku.

Troy, sem hefur búið á Íslandi í eitt og hálft ár og er íslenskur ríkisborgari, segir málið skipta sig afar miklu máli en m.a. sé verið að neita hommum um að hjálpa öðrum.

„Við viljum geta gefið blóð til fólks sem þarf á því að halda; vina, fjölskyldu og jafnvel fólks sem við þekkjum ekki,“ segir Troy. „Við viljum geta gert það af því að við viljum líka hjálpa fólki,“ segir hann.

Sævar sagði í samtali við Morgunblaðið að þrátt fyrir að gild rök hafi verið fyrir því á sínum tíma að meina ákveðnum hópum að gefa blóð sé staðan önnur í dag. HIV-smit hafi iðulega verið algengara meðal gagnkynhneigðra en samkynhneigðra og í dag sé blóðið skimað eftir frábrigðum.

Sævar segir að ekki megi gleyma því að samkynhneigðir séu mjög meðvitaðir um áhættuna tengda HIV-veirunni og hafi barist ötullega fyrir vitundarvakningu um HIV.

„Margir gætu spurt: Er þetta eitthvert mál? Af hverju vilja þeir gefa blóð? En það er bara tilfinning einstaklingsins, að honum sé meinað að gera eitthvað sem aðrir fá að gera og er talinn sjálfsagður réttur fólks; að gefa eitthvað af sér og leggja eitthvað af mörkum. Slík höfnun er mikil og fólk sættir sig illa við slíkt.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert