Tvö verk Ásmundar sett upp í Seljahverfi

Móðir mín í kví, kví eftir Ásmund Sveinsson
Móðir mín í kví, kví eftir Ásmund Sveinsson

Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson afhjúpar verkin Móðir mín í kví, kví og Fýkur yfir hæðir eftir Ásmund Sveinsson við Seljatjörn og Seljakirkju í dag. 

Þetta eru fyrstu útilistaverk sem Reykjavíkurborg hefur sett upp í Seljahverfi. Á sama tíma verður opnuð sýning á listaverkum barna í fjórða bekk Seljaskóla í Seljakirkju.

Þema sýningarinnar er þjóðsögur og verk Ásmundar Sveinssonar en sýningin er unnin undir handleiðslu kennara í Seljaskóla og í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Bókmenntaborgina. Öll börn í þriðja, fjórða og fimmta bekk Seljaskóla taka þátt í viðburðinum. 

Viðburðurinn hefst við Seljatjörn klukkan 10 þar sem borgarstjóri afhjúpar verkið Móðir mín í kví, kví eftir Ásmund Sveinsson . Þaðan verður farið í skrúðgöngu að Seljakirkju þar sem borgarstjóri afhjúpar verkið Fýkur yfir hæðir. Þá verður opnuð sýning á verkum barnanna sem þau hafa unnið að undanfarnar vikur í skólanum og í Ásmundarsafni.

Á sýningunni verða sýndar klippimyndir með tilvísun í Krummasögur, myndasögur með tilvísun í þjóðsöguna um Bakkabræður og leirverk sem hafa vísun til álfasagna. Alls tóku 60 börn þátt í verkefninu en þau hafa jafnframt sótt sér efnivið í verk Ásmundar Sveinssonar. Þau fengu m.a. leiðsögn í Ásmundarsafni um verk Ásmundar og unnu leirverk í safninu.

 Ásmundur Sveinsson sótti sér einnig innblástur í þjóðsögur í verkum sínum og er verkið Móðir mín í kví, kví t.d. beintengt við sjálfa þjóðsöguna en verkið sýnir barnið birtast móður sinni og bjóða henni ,,dulu til að dansa í“, samkvæmt fréttatilkynningu.

Ásmundur mótaði verkið Fýkur yfir hæðir þegar hann bjó og starfaði á Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi á árunum 1931-1933. Um þessa fallegu en jafnframt átakanlegu mynd sagði Ásmundur: „Ég gerði hana í Laugarnesi. það var bylur úti og mér datt í hug að gera mynd af konu sem reynir að vernda barnið sitt. Lítill strákur kom svo til mín síðar, sá skissuna og segir: „Ég veit hvað þessi mynd heitir.“ „Og hvað heitir hún?“ sagði ég?“ „Fýkur yfir hæðir,“ sagði stráksi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert