„Ég hef eignast eigin rödd“

Yahya Hassan
Yahya Hassan mbl.is/Golli

Yahya Hassan hristi rækilega upp í dönsku samfélagi þegar hann í fyrra, aðeins 18 ára gamall, sendi frá sér metsöluljóðabók sem lýsir uppvexti í skugga heimilisofbeldis og langtímavistun á uppeldisstofnunum. Hann ræðst harkalega á feðraveldið og hræsnina sem hann sér meðal múslímskra innflytjenda í Danmörku.

Ég myndi ekki lýsa sjálfum mér sem reiðum, ungum manni. Það er hins vegar sú mynd sem danskir fjölmiðlar hafa valið að draga upp af mér og ég get ekki stjórnað þeirra túlkun á mér, þó ég sé ósáttur við hana. Það eina sem ég get gert er að veita fleiri viðtöl til að reyna að leiðrétta hlutina og koma mínum skoðunum á framfæri,“ segir ljóðskáldið Yahya Hassan í samtali við Morgunblaðið. Hassan kom í stutta heimsókn til Íslands í liðinni viku og las upp fyrir menntaskólanema í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og kom fram á Airwords ljóðahátíðinni í Kaldalóni Hörpu sl. fimmtudag en kvöldið áður kom hann fram í Norræna húsinu þar sem hann las upp úr ljóðabók sinni og sat fyrir svörum hjá Hauki Ingvarssyni bókmenntafræðingi. Greinilegt var að íslenskir lesendur höfðu mikinn áhuga á Hassan því ekki aðeins var salurinn í Norræna húsinu þéttsetinn heldur líka anddyrið og komust færri að en vildu.

Og það eru ekki bara íslenskir bókmenntaunnendur sem hrífast af ljóðskáldinu unga, því hann hefur frá því bókin hans kom út í Danmörku tekið virkan þátt í samfélagsumræðunni og svo sannarlega hrist upp í dönsku menningarlífi. Fyrsta upplag ljóðabókar hans sem danska forlagið Gyldendal gaf út var aðeins 1.600 eintök, en fljótt varð ljóst að endurprenta þyrfti bókina jafnharðan og á fyrstu þremur mánuðum eftir að hún kom út seldist hún í yfir 100.000 eintökum, sem mun vera algjört einsdæmi þar í landi. Í nóvember 2013, tæpum mánuði eftir útkomu bókar hans, voru honum veitt verðlaun sem Byrjandi ársins á bókamessunni BogForum í Danmörku. Í sama mánuði var hann tilnefndur til bókmenntaverðlauna Montana og síðar einnig til lesendaverðlauna á sviði bókmennta hjá danska dagblaðinu Berlingske Tidende. Danska dagblaðið Weekendavisen veitti honum bókmenntaverðlaun fyrir árið 2013 í janúar sl. og um svipað leyti hlaut hann einnig bókmenntaverðlaun danska dagblaðsins Politiken. Í september sl. hlaut hann síðan virtustu byrjendaverðlaun í Danmörku á sviði bókmennta sem kennd eru við Bodil og Jørgen Munch-Christensen. Ljóðabók hans hefur þegar verið gefin út átta löndum, þ.e. í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Þýskalandi, Spáni og Ítalíu auk Íslands og ekkert lát virðist á vinsældum hans því fleiri útgáfusamningar munu vera í burðarliðnum.

Gagnrýni á ofbeldi og glæpi

Þegar blaðamaður hitti Hassan í Hörpu síðdegis sl. fimmtudag var hann augljóslega þreyttur eftir daginn og lengi framan af viðtali svaraði hann spurningum blaðamanns aðeins með einsatkvæðisorðum og snubbóttum setningum. Að stuttum tíma liðnum var því ekki um annað að ræða en að bjóða Hassan að binda enda á viðtalið. „Þú ræður því. Þú geldur vissulega fyrir að reka lestina í hópi fjölmiðla, því ég er búinn að fara í tíu viðtöl í dag og er orðinn þreyttur á að endurtaka mig í sífellu. Ég nenni satt að segja ekki að vera hérna og myndi heldur vilja fara heim á hótel til að leggja mig í klukkutíma. En ég skal svo sem svara spurningum þínum. Spurðu bara!“ sagði Hassan og sneri sér síðan aftur að snjallsímanum sínum sem átti athygli hans mestallt viðtalið.

Aðspurður segist Hassan hafa byrjað á því að skrifa rapptexta með það að markmiði að gagnrýna hræsni fullorðna fólksins. „Bæjaryfirvöld buðu upp á ýmis listnámskeið til handa ungmennum í félagslega illa stöddum hverfum. Í kringum 13 ára aldurinn skráði ég mig því á rappnámskeið. Fljótlega fannst mér rappið hins vegar ekki vera rétti miðillinn fyrir mig. Mér fannst rappið vera of yfirborðskennt og bara kjánalegt að ganga um með buxurnar á hælunum. Auk þess krafðist rappið þess að ég stærði mig af ofbeldi og glæpum, sem var samt það sem ég vildi allra helst gagnrýna. Ég gaf því rappið fljótt upp á bátinn, en hélt áfram að skrifa texta þó ég væri hættur að flytja þá sem rapp. Ljóðin gefa mér fullt frelsi til að segja það sem ég hef að segja með þeim hætti sem hentar mér. Þau gefa mér færi á að ríma og vinna með rytmann ef mér sýnist svo, án þess að formið bindi mig um of. Ljóðin gefa mér líka færi á að segja stuttar sögur. Mig langaði til að segja mína sögu á heiðarlegan hátt og hafði þörf fyrir að eignast rödd. Með útgáfu bókarinnar hef ég nú eignast mína eigin rödd, en fram að útgáfu hennar hafði fjöldi fullorðinna talað fyrir mína hönd, hvort heldur það voru ættingjar eða fræðingar hvers konar,“ segir Hassan og vísar þar til m.a. sálfræðinga og félagsfræðinga sem hann segist ekki gefa mikið fyrir.

Ítarlegt viðtal við Hassan má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Yahya Hassan
Yahya Hassan mbl.is/Kristinn
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert