Óvissa um viðbyggingu í sex ár

Frá hausthátíð Breiðholtsskóla. Mynd úr safni.
Frá hausthátíð Breiðholtsskóla. Mynd úr safni. Þorkell Þorkelsson

„Fyrir um tíu árum var komin þörf á viðbyggingu fyrir skólann og fenginn matshópur til að skoða það. Sá hópur mat það svo að þörf væri á stækkun og endurbótum á skólanum. Sú vinna klárast og það er ákveðið að byggja eina hæð ofan á álmu í skólanum. Byrjað er að fjarlæga veggi og undirbúa framkvæmdirnar haustið 2008 en rétt áður en framkvæmdir áttu að hefjast var öllu slaufað,“ segir Anna Sif Jónsdóttir, formaður foreldrafélags Breiðholtsskóla, en skólinn hefur nú í sex ár beðið eftir að framkvæmdir við viðbyggingu við skólann hæfust.

Breiðholtsskóli hóf starfsemi árið 1969 og er því 45 ára gamall. Að sögn Önnu er mörgu ábótavant þegar kemur að aðstöðu og plássi innan skólans.

Árið 2008 var skólinn búinn að búa við það að fá engar endurbætur eða viðhald í nokkur ár vegna yfirvofandi framkvæmda sem var síðan hætt við. Ekkert gerðist fyrr en árið 2010 en þá tóku foreldrar sig til og tóku myndir af aðstöðunni sem að sögn Önnu var ekki góð. 

„Það var augljós slysahætta á skólalóðinni, steypuvírar stóðu út úr veggnum. Sendar voru myndir til borgarinnar og það sumar var settur peningur í að laga það,“ segir Anna Sif.

Kostar 1,2 milljarða að gera skólann sambærilegan öðrum

Í febrúar 2013 var send beiðni til borgarinnar um að innviðir skólans yrðu metnir. „Þar var bent á það að skólinn væri ekki búinn að fá viðhald eða endurbætur í mörg ár og það væri kominn tími á viðhald. Þá fór borgin í það að skapa vinnuhóp sem skilar skýrslu um skólann í nóvember 2013,“ segir Anna Sif en sá hópur samanstóð af foreldrum, kennurum, arkitektum og borgarstarfsmönnum. 

Hópurinn komst að þeirri niðurstöðu að það myndi kosta 1,2 milljarða að gera skólann sambærilegan öðrum skólum í Reykjavík. Var lagt til að 450 milljónum yrði varið í viðbyggingu við skólann. 

„Hópurinn horfði á skólann og sá að þetta er ekkert nútímaskóli. Þeir láta teikna hann upp á nýtt sem var mjög flott og við vorum hæstánægð með þá niðurstöðu,“ segir Anna, en nú ári síðar hefur ekkert gerst.

„Við gerum okkur alveg grein fyrir því að við fáum enga 1,2 milljarða á nokkrum árum en við sáum þarna bréf með skýrslunni þar sem starfsmaður borgarinnar leggur til að viðbygging verði á fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2015,“ segir Anna Sif.

„Þá var að okkar mati tímaáætlun næsta skref og áætlun um hvernig við viljum breyta skólanum úr þessu hraki sem hann er í dag í almennilegan skóla.“

Ekkert hefur gerst síðan í fyrra

Engin tímaáætlun hefur þó borist og samkvæmt heimildum foreldrafélagsins er viðbygging ekki á fjárhagsháætlun borgarinnar fyrir næsta ár. „Skólinn er búinn að vera á óvissustigi í tíu ár og það vantar að taka ákvörðun og vinna eftir plani,“ segir Anna.

Þegar vinnuhópurinn skilaði skýrslunni fyrir ári voru allir kennarastólar í skólanum slæmir eða ónýtir og 93% stóla nemenda. Jafnframt voru aðeins krítartöflur í skólanum fyrir ári.

„Það sem er svo sætt með þessa krakka að þeim finnst skólinn sinn æðislegur og frábær þrátt fyrir aðbúnaðinn. Á vissan hátt þekkja þau ekki annað,“ segir Anna Sif. Í haust fékk skólinn 150 milljónir til þess að endurnýja ýmsa hluti og þar á meðal stóla. Að sögn Önnu var það gleðidagur meðal nemenda.

„Krakkarnir í unglingadeild muna sérstaklega þennan dag. Þau voru búin að vera að koma heim illt í bakinu og með ýmis stoðkerfisvandamál í mörg ár því þau sátu á of litlum stólum.“

Hefur fundað með borgarfulltrúum og borgarstjóra

Anna Sif fundaði með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í vor um stöðu mála í Breiðholtsskóla. „Þá sagðist hann ætla að koma okkur saman við embættismenn svo við gætum unnið tímaáætlun í samráði. Það hefur ekki enn verið gert. Upp á síðkastið hef ég hitt Halldór Halldórsson, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og Nichole Leigh Mosty, formann hverfisráðs Breiðholts. Í vikunni hitti ég jafnframt Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. Þau eru öll á einu máli um að eitthvað þurfi að gera.“

Anna Sif gagnrýnir einnig aðstöðu til sérkennslu í skólanum.

„Þetta eru bara gamlar geymslur  og sumar gluggalausar. Það er reynt að breyta þessu í kennslustofur með ósamstæðum húsgögnum. Í að minnsta kosti tveimur stofum er jafnframt stýrikerfi fyrir loftræstibúnað, rafmagnstafla og suðandi netkassi. Það eru stöðug hátíðnihljóð í þessum stofum og þarna á að kenna krökkum sem eiga erfitt með að læra til dæmis að lesa,“ segir Anna Sif.

„Skólinn hefur því miður bara ekki meira rými og er búinn að taka flestar geymslur undir kennslu. Það vantaði pláss löngu áður en viðbyggingin átti að koma.“

Anna Sif leggur þó áherslu á að margt gott sé gert í skólanum. „Við erum ekki bara sitjandi á rassinum að bíða eftir að borgin hendi í okkur pening. Það er margt gott í gangi í skólanum þó að aðstaðan sé ekki góð. Við erum með mjög oflugt foreldrafélag og svo er mikið að gerast í kennsluháttum. Skólinn er allur á uppleið.

En maður venst umhverfinu í kringum sig. Maður venst slæmri lýsingu, brotnum ljósum, sprungum í veggjum og opnu rafmagni. En það er samt ekki boðlegt.“

Foreldrafélag Melaskóla hélt fund í vikunni um aðbúnað og húsnæði skólans ásamt fulltrúum borgarinnar. Umfjöllun frá þeim fundi má lesa hér að neðan.

„Hann er einfaldlega sprunginn“

Hér má sjá stýribox fyrir loftræstikerfi, rafmangskassi og sitthvað fleira …
Hér má sjá stýribox fyrir loftræstikerfi, rafmangskassi og sitthvað fleira saman komið í kennslustofu fyrir sérkennslu.
Slökkvitæki komið fyrir bakvið borð.
Slökkvitæki komið fyrir bakvið borð.
Sérkennsluherbergi í Breiðholtsskóla
Sérkennsluherbergi í Breiðholtsskóla
Meðfram útvegg í matsal er þessi sprunga vegna þess að …
Meðfram útvegg í matsal er þessi sprunga vegna þess að gólf er sigið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert