Biophilia á sér engin landamæri

Frá Biophilia kennsluverkefninu. Börnin nota spjaldtölvur í miklum mæli.
Frá Biophilia kennsluverkefninu. Börnin nota spjaldtölvur í miklum mæli. Mynd/Curver Thoroddsen

Norrænu samstarfi um kennsluverkefnið Biophilia verður formlega hleypt af stokkunum í vikunni. Árið 2014 fer Ísland með formennsku í norrænu ráðherranefndinni og í því felst m.a. að leiða ýmis norræn samvinnuverkefni og er Biophilia kennsluverkefnið eitt af þeim. Verkefnið er til þriggja ára, árið 2014 fer í undirbúning, 2015 í framkvæmd á Norðurlöndunum og árið 2016 í mat og eftirfylgni.

Verkefnið á uppruna sinn hér á landi þar sem Björk Guðmundsdóttir hefur þróað þessa nýstárlegu aðferð í samstarfi við Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg. Biophilia kennsluverkefnið byggist m.a. á þeirri grunnhugmynd að best sé að börn hefji listiðkun sína með sköpun þar sem tónlist, vísindi og tækni eru samþætt á nýstárlegan hátt. Með Biophiliu aðferðinni er leitast við að brjóta upp hið hefðbundna kennsluform. Kennarar, fræði- og vísindamenn, listamenn, hugvitsmenn og aðrir þátttakendur vinna þverfaglega, á milli skólastiga,  námsgreina, vísinda og lista þar sem sköpun er notuð sem kennsluaðferð og til að örva umhverfisvitund.

Verður kennd í 3-5 skólum að  lágmarki

Á morgun munu samstarfsaðilar frá öllum fimm Norðurlöndunum auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands koma saman á Íslandi til að taka fyrstu skrefin í norræna samstarfinu. Hvert landanna hefur skipað stýrihóp og tilgreint þau svæði þar sem Biophila verður kennd á hverju ári. Í Danmörku verður það í Álaborg, Grankulla/Kaunainen í Finnlandi, Strand í Noregi, Sundsvall í Svíþjóð, Mariehamn á Álandseyjum, Þórshöfn í Færeyjum og Sisimiut í Grænlandi. 

„Biophilia verður kennd í 3-5 skólum að lágmarki í hverju landi. Stýrihóparnir koma hingað og taka þátt í þróun verkefnisins með okkur. Það verður áhugavert að fylgjast með þessu því það eru afar fá verkefni sem hafa náð þessu víðtæka samstarfi á öllum Norðurlöndunum,“ segir Arnfríður Valdimarsdóttir, einn af verkefnastjórum Biophilia. „Stýrihóparnir eru þverfaglegir og í þeim eru fulltrúar skólayfirvalda svæðanna, menningarstofnana og háskóla- eða rannsóknarstofnana. Það kjarnar þessa þverfaglegu vinnu sem snýst um að brjóta niður landamæri og hugsa út fyrir kassann sem er eitt af grunnöflum Biophiliu.“

Auður Rán Þorgeirsdóttir, annar verkefnastjóri Biophilia bætir við að koma stýrihópana hafi tvíþætt markmið. „Það er að kynna verkefnið enn frekar og sjá til þess að undirbúa löndin og taka fyrstu skref í framkvæmd verkefnisins.“

Þær segja að fundurinn sem hefst á morgun sé ákveðinn hápunktur í Biophilia ferlinu. „Verkefnið þróaðist fyrst hérna í Reykjavík árið 2011 og var þá samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands og Bjarkar Guðmundsdóttur,“ segir Arnfríður. „Undanfarin ár hafa verið undirbúningur að þessu og nú er  ákveðinn hápunktur að fara að eiga sér stað.“

Útrásin dýpkar verkefnið

Með Biophiliu er reynt að brjóta upp hefðbundin kennsluform með til dæmis iPad spjaldtölvum og eru verkefnastjórarnir sammála um að það tæki hafi breytt gífurlega miklu á stuttum tíma. 

„Með þessari útrás til Norðurlandanna verður verkefnið mun dýpra. Það verður þróað nýtt kennsluefni sem á að geta nýst á fleiri stöðum en aðeins á Norðurlöndum. Kennsluverkefnið Biophilia er orðið miklu dýpra en það var og það verður notað áfram næstu ár,“ segir Auður.

Björk tekur mikinn þátt í þróuninni

Aðspurðar hvort að Björk sjálf sé ánægð með þróun Biophilia segja Auður og Arnfríður svo vera. „Hún er rosalega ánægð. Hún hefur verið mjög tengd frá upphafi í gegnum alla þessa þróun og tekið þátt og átt frumkvæði að ákveðinni vinnu sem fór af stað í vor,“ segir Arnfríður.

„Við fengum sérfræðinga á sínum sviðum frá öllum Norðurlöndum, stjarneðlisfræðingar, listamenn, líffræðingar og kennarar og fleiri sem voru í fjóra daga með Björk hér á landi. Þar var farið í gegnum hvaða kennsluefni hafi safnast og hugmyndir fram að þessu. Sérfræðingarnir fóru í það að bæta við það efni og Björk leiddi þá vinnu,“ segir hún og bætir við að Björk sé gífurlega metnaðarfull þegar það kemur að verkefninu.

„Það er svo mikill metnaður hjá henni. Hún sér fyrir sér hvernig krakkar geta lært tónlist, tónfræði og að skapað tónlist á aðgengilegri hátt en kannski þegar hún var að læra sem barn. Það er búið að breytast mikið en þaðan sprettur þessi grunnur hennar og metnaður.“

„Fyrir utan spjaldtölvu innleiðinguna þá hefur þetta listaverk, Biophilia orðið að stóru kennsluverkefni sem er mjög jákvætt,“ bætir Auður við.  „Ávinningurinn með því að nú er búið að breyta samtali milli faghópa og brjóta upp hefðbundið kennsluform. Árið 2016 eigum við eftir að sjá vel hver útkoman verður og hversu mikilvægt það er að nota sköpun við kennslu og rannsóknir.“

Arnfríður Valdimarsdóttir, ein af verkefnastjórum Biophiliu.
Arnfríður Valdimarsdóttir, ein af verkefnastjórum Biophiliu.
Auður Rán Þorgeirsdóttir, ein af verkefnastjórum Biophiliu.
Auður Rán Þorgeirsdóttir, ein af verkefnastjórum Biophiliu.
Frá Biophilia kennslu í Hörpu.
Frá Biophilia kennslu í Hörpu. Mynd/Curver Thoroddsen
Mynd/Curver Thoroddsen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert