Hanna Birna nýtur breiðs stuðnings

Hanna Birna Kristjánsdóttir og Bjarni Benediktsson á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í …
Hanna Birna Kristjánsdóttir og Bjarni Benediktsson á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. mbl.is/Kristinn

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra nýtur breiðs stuðnings innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins til að starfa áfram í ríkisstjórn. Þetta var niðurstaða þingflokksfundar sjálfstæðismanna í dag að sögn Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins í samtali við mbl.is.

Eins og fréttavefurinn hefur greint frá var Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu, dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir að leka trúnaðargögnum um hælisleitanda. Bjarni sagði að Hönnu Birnu hafa gert grein fyrir atburðum gærdagsins þegar Gísli gekkst við leka á fundi þeirra og umræður hafi í kjölfarið farið fram í þingflokknum um málið.

„Hún nýtur trausts til að halda áfram. Hún nýtur óskoraðs trausts frá mér og það kom fram beiður stuðningur við ráðherrann á þingflokksfundinum. Það er eðlilegt að menn spyrji sig þegar aðstoðarmaður ráðherra fær dóm á sig í refsimáli hvernig eigi að bregðast við. Í mínum huga hefur ráðherrann get það sem í hennar valdi stendur til þess að bregðast við,“ sagði Bjarni. Hún hafi reynt að aðstoða við að upplýsa málið þó einhver mistök hafi verið gerð undir rannsókn þess. Ekkert benti til þess að Hanna Birna hefði haft aðkomu að málinu. Þá hefði hún sagt sig frá dómsmálunum og með því axlað ákveðna pólitíska ábyrgð.

„Hanna Birna var kosin á þing sem leiðtogi okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík, hún er varaformaður flokksins og fyrsti þingmaður Reykvíkinga. Mér finnst hún líka hafa ábyrgð sem slíkur stjórnmálamaður sem ég veit að hún vill rísa undir. Það gerir hún best með því að halda sínu striki og hefur til þess traust frá mér,“ sagði Bjarni ennfremur og bætti við aðspurður að hann teldi málið ekki þannig vaxið að henni bæri að víkja sem ráðherra.

Bjarni sagði aðspurður ljóst að lekamálið hefði valdið mörgum skaða en upp úr stæði þó að brotið hefði verið á einstaklingum sem hefðu ekki notið að fullu þeirrar málsmeðferðar sem þeir hafi átt rétt á. Sá sem hafi borið ábyrgð á því hafi nú hlotið dóm. Spurður hvernig farið yrði með dómsmálin í framhaldinu sagði Bjarni að hann og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra yrðu að hans mati að ræða í framhaldinu hvernig þeim málum yrði fyrir komið til frambúðar. 

„Nú er þetta mál upplýst og það gefur að mínu mati tilefni fyrir mig og forsætisráðherra til þess að setjast niður og taka ákvörðun um það hvernig við skipum dómsmálunum út kjörtímabilið. Það hefur legið fyrir frá því að Hanna Birna óskaði lausnar frá dómsmálunum að ákveðið bráðabirgðaástand hefur verið við lýði varðandi það ráðuneyti og það er langbest að koma því í varanlegar skorður sem fyrst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert