„Réttlæti á hvolfi“

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

„Réttlætti þessarar ríkisstjórnar er þannig, að ekki bara létta þeir auðlegðarskattinum af þeim sem voru að greiða hann í ríkissjóð, heldur ætla þeir líka að greiða þeim fé í gegnum skuldaleiðréttinguna,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar í umræðum um munnlega skýrslu forsætisráðherra um skuldaleiðréttinguna.

Helgi tók fram, að það væri hægt að segja margt gott um aðgerðir stjórnvalda í skuldamálum. Hann kveðst fagna þeim sem fjölda heimila sem njóta aðgerða ríkisstjórnarinnar. Hins vegar séu aðgerðirnar ómarkvissar og „allt of miklum fjármunum sóað til fólks sem ekki þarf á framlögum úr ríkissjóði að halda,“ sagði Helgi.

„Sannarlega er þetta ljósárum frá því sem Framsóknarflokkurinn lofaði fólkinu í landinu,“ sagði Helgi. „Rúmlega helmingur heimila í landinu fær ekki neitt. Innan við helmingurinn fær að meðaltali rúmlega 8.000 krónu lækkun af afborgun á mánuði. Hver maður sér að það er ekki leiðrétting á forsendubrestinum sem varð hér í hruninu. Það er ekki upprisa millistéttarinnar, það eru engir 300 milljarðar og það er ekki 20% og það gaman er hvergi að finna,“ sagði Helgi.

Hann tók fram, að það væri gríðarlega óábyrgt að gefa stórum hópi fjármuni sem þurfi ekki á þeim að halda. „Ég vek athygli á því í þessu sambandi, að 30% af aðgerðinni kemur til fólks, samkvæmt glærusýningu ríkisstjórnarinnar sjálfrar, sem að á yfir 25 milljónir króna í hreinni eign íbúðarhúsnæði sínu,“ sagði Helgi.

Helgi segir að hættan af þessari skuldaaðgerð sé að hún muni auka þenslu í samfélaginu og valda verðbólgu.

Mesta áhyggjuefnið nú, að mati Helga, er að það sé ætlun stjórnvalda að láta heimilin í landinu sjálf borga skuldaniðurfærsluna, með því að lækka lán heimilanna um 5% en hækka á sama tíma matarverð um 5% - með hækkun á matarskatti - og með því að minnka vaxtabætur um 14 milljarða króna frá því sem var árið 2011.

Helgi segir mikilvægt að menn átti sig á þeirri erfiðu stöðu sem heimili séu í sem eru skilin eftir í þessari aðgerð. „Þau heimili, 30 þúsund talsins, á leigumarkaði sem sannarlega urðu fyrir forsendubresti og líka þau heimili sem fóru í gegnum 110% leiðina og fá hér ekki neitt,“ sagði hann.

Hvað varðar séreignarsparnaðinn, sagði Helgi að það hafi ekki allir efni á því að nýta sér það úrræði. „Þeir sem hafa mestar tekjur þeir fá mestu eftirgjöfina úr ríkissjóði en þeir sem hafa litlar tekjur [...] þeir geta lítið eða ekkert nýtt sér þessi framlög úr ríkissjóði. Virðulegur forseti, það er réttlæti á hvolfi,“ sagði Helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert