Setji hópinn í fjárhagslegt uppnám

Verkfall tónlistarskólakennara hefur nú staðið yfir í þrjár vikur.
Verkfall tónlistarskólakennara hefur nú staðið yfir í þrjár vikur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fundur fór fram í verkfallsmiðstöð Félag tónlistarskólakennara í dag. Í ályktun sem fundurinn samþykkti kemur meðal annars fram að slæm fjárhagsstaða sveitarfélaga réttlæti ekki að lítill hópur innan Kennarasambands Íslands sé látinn sitja eftir í launakjörum.

Ályktunin í heild sinni

Fundur í verkfallsmiðstöð FT skorar á sveitarfélögin í landinu að fylgja sínu meginsamningsmarkmiði í kjaraviðræðum 2014 sem felur í sér jafnrétti í launasetningu.

Slæm fjárhagsstaða sveitarfélaga réttlætir ekki að lítill hópur innan Kennarasambands Íslands sé látinn sitja eftir í launakjörum. Ákvarðanir um hvar skuli skorið niður verða að vera teknar á öðrum vettvangi en við gerð kjarasamninga.

Fundurinn lýsir yfir verulegum áhyggjum af þeirri aðför gegn tónlistarskólakerfinu og tónlistarmenntun sem virðist vera að ná hápunkti um þessar mundir.

Verkfall tónlistarkennara hefur nú staðið í þrjár vikur með tilheyrandi kjaraskerðingu þeirra sem lagt hafa niður störf. Það er með öllu ólíðandi að sveitarstjórnarmenn skuli setja þennan hóp, sem síðustu ár hefur dregist aftur úr öðrum sambærilegum hópum í tekjum, í enn frekara fjárhagslegt uppnám við það eitt að knýja á um kjarabætur sem allir sjá að eru nauðsynlegar og réttlátar.

Fundurinn krefst þess að sveitarfélögin í landinu láti til sín taka í þessu máli og gangi þegar til samninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert