Tónlistarskólar stefna í gjaldþrot

mbl.is/Rósa Braga

„Þeir sem fara með málaflokkinn vita að skólarnir eru á leiðinni á hausinn. Ekki er hægt að redda sér mánaðamót eftir mánaðamót, við getum það ekki til lengdar. Við erum sífellt með hnút í maganum hver mánaðamót því við vitum ekki hvort við munum geta borgað fólkinu okkar laun.“ Þetta segir Gunnar Guðbjörnsson, skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz í samtali við mbl.is um fjárhagsstöðu tónlistarskólanna í Reykjavík, sem hann segir að sé mjög slæm.

Segir hann að ekki  hafi verið gengið frá því hvernig staðið verði að fjármögnun tónlistarskólanna í framtíðinni og að núverandi fjármögnun sé ófullnægjandi. Gunnar segir að tónlistarskólar í Reykjavík séu háðir því að lausn finnist á málefnum framhaldsstigs í tónlist.

„Árið 2010 varð sú krafa um að ríkið tæki að sér fjármögnun á öllu tónlistarnámi á framhaldsskólastigi  mjög hávær. Þar fór Reykjavíkurborg fremst í flokki, enda flestir nemendur í framhaldsstigi við nám í borginni,“ segir Gunnar. Eftir miklar umræður var „Samkomulag um eflingu tónlistarnáms“ undirritað í maí 2011 og segir Gunnar að það hafi með tíð og tíma sett allt tónlistarnám í Reykjavík á hliðina.

Upphæðin vanáætluð frá upphafi

Til  að forðast flækjustig framkvæmdar á veitingu fjármagns til tónlistarskóla segir Gunnar að  fjármagnið hafi verið sett í Jöfnunarsjóð Sambands íslenskra sveitarfélaga sem veiti því áfram til skóla  um allt land. „Strax í upphafi kom í ljós að upphæðin sem samið var um hafi verið vanáætluð. Helsta ástæða fyrir því var að stuðst var við tveggja ára gamlar nemendatölur. Afleiðingin var að á umræddu skólastigi voru 100 fleiri nemendur en gert var ráð fyrir og upphæðin dugði ekki fyrir kennslukostnaðinum. Í öllum sveitarfélögum nema í Reykjavík greiddu sveitarfélögin þrátt fyrir þetta það sem upp á vantaði,“ segir Gunnar. „Það var í raun bara pólitísk ákvörðun hjá borginni að túlka samkomulagið öðru vísi en öll önnur sveitarfélög“

Í Reykjavík voru skólarnir neyddir til þess að brúa bilið með því að taka fjármuni af öðru rekstrarfé og greiða með því laun kennara að hluta. „Í raun stríðir það gegn lögum um tónlistarskóla,“ segir Gunnar.

Óheimilt að nota skólagjöld til að greiða kennurum

Tónlistarskólum er óheimilt að nota skólagjöld til þess að greiða kennslukostnað. Skólagjöld eiga að standa undir öðrum rekstrarkostnaði eins og leigu, hita og hljóðfærakostnaði.

„Borgaryfirvöld telja sig ekki bera skyldu til að greiða það sem vantar upp á launin. Sú upphæð sem er færð inn á reikning tónlistarskóla í hverjum mánuði dugir ekki fyrir launagreiðslunum. Á þeim rúmu þremur árum sem samkomulagið hefur verið við lýði hefur borgin ítrekað lánað tónlistarskólum fé til þess að greiða kennslulaun og þannig bjargað málum fyrir horn,“ segir Gunnar og bætir við að börgin geri ráð fyrir að fá þau framlög til baka.

 „Það vantar allt um 20-25%  upp á heildar kennslukostnað í framhaldsstigi og miðstigi í söng og þau tökum við af öðrum áðurgreindum tekjuliðum okkar, skólagjöldum,  sem eiga að fara í annan rekstur.  Þegar borgin svo krefur okkur um þetta fé er einsýnt að við lokum skólum. Þessi notkun skólagjaldanna þýðir í annan stað að maður hættir að geta gert ýmsa hluti vegna fjármagnsskorts en sumir  hafa séð sig tilneydda  að hækka skólagjöld töluvert sem aðeins hefur haft þær afleiðingar að margir sjá sér ekki fært að stunda lengur námið,“ segir Gunnar. „Hér er því um hringrás vandræða að ræða.“

„En eins og áður segir er fjárhagsstaðan orðin svo erfið hjá mörgum skólum að jafnvel skólagjöldin duga ekki lengur. Aðeins aukið fjármagn getur bjargað málunum. Þessi 20-25% sem við erum alltaf að „dekka“ gera okkur mjög erfitt fyrir,“ segir Gunnar og bætir við á meðan sumir tónlistarskólar geti skrimt til áramóta muni aðrir stöðvast um mánaðamót ef ekkert verði gert.

„Við erum öll á síðustu dropunum“

Að sögn Gunnars eru skólarnir í verstu stöðunni skólar með hátt hlutfall framahaldsnemenda og söngskólar.

„Við erum öll á síðustu dropunum og viljum endilega vinna okkar vinnu og ala upp nýtt tónlistarfólk og ekki síður nýja áheyrendur. Óteljandi greinar síðustu vikur um ágæti tónlistarnámsins eru okkur hvatning til þess en við skiljum hvorki upp né niður í því sem yfirvöld eru að gera og hvað borgarstjórn gengur til með fálætinu.“

Ofangreint samkomulag rann úr gildi í ágúst 2013 en hefur verið framlengt tvisvar sinnum án þess að endurskoðun fari fram.

„Ég held að það viti allir hjá borginni hversu illa er staðið að þessu samkomulagi og hver afleiðing þess er. Þetta hefur verið svo lengi í loftinu. En vonda tilfinningin í þessu er að við fáum í raun engin viðbrögð. Það hefur verið talað um að það verði gert samkomulag en ekkert er lagað. Fundum er frestað um málið og samráð við skólana ekkert. Samkomulagið frá 2011 eru í rauninni ólög sem geta auðvitað ekki staðið eins og þau eru,“ segir Gunnar. „Lögin skortir allan skýrleika og skilja eftir vafa um hver fjármagnar í raunkennsluna. Það er því eðlilegt að þar til úr því hefur verið skorið geri sveitarfélögin það eins og verið hefur síðustu ár. Sá er skilningur allra sveitarfélaga utan Reykjavíkur.“

Alltaf mikil aðsókn í skólann

Tónlistarskóli Sigurðar Demetz var stofnaður fyrir um 20 árum síðan. Gunnar segir að það sé alltaf nægilegur áhugi og aðsókn í skólann. „Síðustu 12 til 14 árin hefur skólinn verið að eflast. Þetta er skóli sem býður upp á marga okkar þekktustu söngvara sem söngkennara. Við erum hér með Diddú, Kristján Jóhannsson og fleiri sem eru að gera mjög fína hluti. Það er alltaf góð aðsókn en maður finnur auðvitað fyrir því að fólk hafi minna á milli handanna en við erum alltaf með í kringum 90 nemendur. En þessi söngskóli er aðeins einn fjölda frábærra skóla í Reykjavík og einn hluti af mengi tónlistarskóla sem hefur sérstöðu á einhvern hátt. Það er þetta mengi sem skilar okkur árangrinum og ef það fer að kvarnast úr þessu kerfi er augljóst að tónlistarlífið mun á skömmum tíma bíða mikinn skaða af. Endurnýjun í tónlist er stöðug,“  segir Gunnar.

Gagnrýnir viðbrögð úr ráðhúsinu

Hluti af kennurum við skólann eru nú í verkfalli Félags Tónlistarskólakennara. Þeir nemendur sem missa úr tímum vegna verkfalls verða ekki rukkaðir um mánaðagjöld. „Okkur fannst ekki hægt að senda út reikninga á fólk sem er ekki að koma hingað í tíma. Við munum samt reyna eins og við gerum að bæta fólki upp tímana sem það hefur misst af hvernig sem við förum nú að því.“

„Óþægilega tilfinningin er sú að þetta sé gert svona svo hægt sé að losa sig við eitthvað olnbogabarn. Maður vill ekki ætla nokkrum þá hugsun en viðbrögðin úr ráðhúsinu gefa því miður ekki ástæðu til annars. Ég vona að það breytist.  En ef að fólk hefur vilja til að bjarga þessu kerfi þá þurfum við að sjá það gert fljótlega,“ segir Gunnar að lokum.

Gunnar Guðbjörnsson, skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz
Gunnar Guðbjörnsson, skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert