Ætla að standa við afnám verðtryggingar

Katrín benti m.a. á að Íbúðalánasjóði væri ekki heimilt að …
Katrín benti m.a. á að Íbúðalánasjóði væri ekki heimilt að veita óverðtryggð lán. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ríkisstjórnin ætlar að standa við kosningaloforð Framsóknarflokksins um að afnema verðtryggingu. Þetta kom fram í svari Eyglóar Harðardóttur, félagsmálaráðherra, við fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur, þingmanns Samfylkingar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

Katrín spurði hvernig ráðherrann ætlaði að standa við loforð um að afnema verðtryggingu og með hvaða hætti það yrði gert. Eygló hefði áður sagt að það væri einfalt og til þess þyrfti aðeins vilja og að taka ákvörðun. Lítið hafi hins vegar verið um aðgerðir til að fylgja þeim orðum eftir. Katrín benti á að aðgerðir ríkisstjórnarinnar gengu jafnvel þvert á þetta loforð og vísaði til þess að félagsmálaráðherra hefði slegið út af borðinu þá breytingu sem gerð var á síðasta kjörtímabili að heimila Íbúðalánasjóði að veita óverðtryggð lán.

Félagsmálaráðherra vísaði til ræðu forsætisráðherra á Alþingi í gær í umræðum um niðurfellingar á húsnæðislánum. Þegar væri starfshópur búinn að skila skýrslu um afnám verðtryggingar með tillögum, þar á meðal að banna verðtryggð lán til 40 ára. Hvernig Framsóknarflokkurinn hefði staðið við loforð sín um að að fella niður fasteignaskuldir ætti að sýna stjórnarandstöðunni að hann ætlaði að standa við önnur loforð sín.

„Við munum standa nákvæmlega við það sem við lofum,“ sagði Eygló.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert