„Mér finnst það auðvitað alveg hörmulegt“

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það er sárara en tárum taki að fjöldi tónlistarskóla rambi á barmi gjaldþrots vegna þess að ákveðin sveitarfélög hafi túlkað samkomulag við ríkið frá 2011 þannig að ríkið tæki á sig ábyrgð á tónlistarnámi á framhaldsstigi.

Þetta sagði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um stöðu tónlistarnáms. Málshefjandi var Katrín Jokobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sem lýsti miklum áhyggjum af stöðu tónlistarnáms og spurði ráðherrann til hvaða aðgerða ríkisstjórnin ætlaði að grípa til þess að styrkja stöðu þess náms.

Menntamálaráðherra sagði að um væri að ræða fráleita niðurstöðu hjá umræddum sveitarfélögum. Ríkið hefði komið með fjármuni inn í tónlistarnám á framhaldsstigi til þess að styrkja það nám samkvæmt samkomulaginu og ennfremur tekið að sér ákveðin verkefni en ábyrgðin lægi hins vegar hjá sveitarfélögunum. Afstaða ríkisvaldsins væri skýr í þessum efnum.

„Þetta var aldrei lagt fram til þess að taka yfir þennan rekstur og fjármagna hann. Síðan auðvitað er það ákvörðun einstakra sveitarfélaga hvort að þau setja mikla fjármuni eða litla til þessa málaflokks, eða jafnvel enga ef þau svo kjósa, en það auðvitað hefur mjög slæmar afleiðingar og mér finnst það auðvitað alveg hörmulegt,“ sagði Illugi.

Sagðist hann vona að afstaða þessara sveitarfélaga breyttist í þeim efnum. Hvað varðar framtíðarskipan þessara mála sagðist ráðherrann vera að vinna að ákveðnum hugmyndum í ráðuneytinu í þeim efnum þar sem sérstaklega væri lögð áhersla á að hlúa að þeim sem hefðu í hyggju að leggja tónlist fyrir sig sem ævistarf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert