Skilorðsbundinn dómur fyrir heimilsofbeldi

Maður var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra nýverið fyrir ofbeldi gagnvart fyrrverandi sambýliskonu. Honum var ekki gerð refsing fyrir ofbeldi sem hann beitti hana á meðgöngu þar sem brotin voru fyrnd en hlé var gert á rannsókninni frá kæru í desember 2011 til ársins 2014 er ákæra var gefin út.

Hann var jafnframt fundinn sekur um að hafa stolið frá konunni með því að taka út af reikningi hennar í heimildarleysi og verið með ærumeiðandi ummæli í hennar garð.

Sakaferill hans fram til ársins 2012 hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar, samkvæmt niðurstöðu dómarans í málinu. Þar kemur fram að maðurinn hafi farið í meðferð vegna áfengisvanda síns og ekki liggi annað fyrir en að hann hafi haldið bindindi og stundi vinnu.  Þá ber að líta til þess að nokkur tími er liðinn frá því að brotin voru framin. Að þessu athuguðu þykir fært að skilorðsbinda refsingu hans að fullu, segir í dómnum. Honum er jafnframt gert að greiða fórnarlambi sínu 600 þúsund krónur í skaðabætur.

Sparkaði, barði og tók þungaða sambýliskonu kverkataki

Í janúar 2014 var maðurinn ákærður af ríkissaksóknara fyrir líkamsárás gegn í handleggi, andlit og höfuð, tekið hana hálstaki og sett hné í kvið hennar, en hún var þá gengin rúma 21 viku með barn sitt og hans.  

Þann 1. desember 2011 á hann að hafa slegið sambýliskonu sína í andlitið á heimili þeirra, ýtt henni í gólfið, rifið í hár hennar og hert að hálsi hennar með báðum höndum.

Hann var jafnframt ákærður fyrir að hafa daginn eftir veist með ofbeldi að sambýliskonu sinni fyrir framan heimili þeirra með því að slá hana með flötum lófa í andlitið inni í bifreið sem lagt á bifreiðastæði og rifið í hár hennar, því næst elt hana út úr bifreiðinni og, er hún féll í jörðina, rifið í hár hennar, slegið hana nokkrum sinnum í andlitið og sparkað tvisvar til þrisvar í bak hennar og fætur. Þessi brot voru öll framin á meðan þau voru í sambúð.

Í niðurstöðu dómara um þessa þrjá ákæruliði kemur fram að nágrannar hafi  tvívegis kallað lögreglu til að kvöldi 9. nóvember 2011 vegna ófriðar. Jafnframt hafi vitni séð hann slá konu sína.  Samkvæmt framburði ákærða og brotaþola rifust þau heiftarlega þennan dag og kom til átaka, þótt maðurinn geri ekki mikið úr þeim.

Viðurkenndi að hafa valdið áverkunum

Maðurinn rengir ekki niðurstöðu læknis sem fram kemur í áverkavottorði og viðurkennir að hafa valdið áverkunum. „Með vísan til þess, framburðar brotaþola, lýsingar hennar fyrir lækni á verknaði ákærða og framburðar vitna um ófrið á heimili ákærða og brotaþola, þykir nægilega sannað að ákærði hafi valdið áverkunum.  Verður hann talinn sannur að sök um þann verknað, sem í þessum ákærulið er lýst, að því undanteknu að gegn neitun hans og með hliðsjón af áverkum, verður ekki talið sannað að hann hafi tekið brotaþola hálstaki og sett hné í kvið hennar,“ segir í dómi héraðsdóms.

Maðurinn var yfirheyrður um þetta atvik af lögreglu þann 3. desember 2011.  Rannsókn stöðvaðist síðan, allt til útgáfu ákæru 14. janúar 2014.  Var sök þá fyrnd samkvæmt ákvæði almennra hegningarlaga. Því var honum ekki refsað fyrir þessa árás. 

Ekki nægjanlega sannað og því sýknað

Aftur á móti þótti árásin þann 1. desember ekki nægjanlega sönnuð og maðurinn því sýknaður af þeirri ákæru. Árásin í bifreið og fyrir utan heimili þeirra daginn eftir þótti hins vegar nægjanlega sönnuð en líkt og árásin þann 9. nóvember var sökin fyrnd og hann sýknaður af ákærunni.

Það var síðan árið 2013 sem er sakaður um ofbeldi gagnvart konunni en þau höfðu á þeim tíma slitið sambúðinni. Þá er hann ákærður fyrir að hafa í bifreið á leið frá verslunarmiðstöðinni Glerártorgi að heimili sínu í febrúar 2013 veist konunni,  tekið hana hálstaki og rifið í hár hennar. Eins að hafa stuttu síðar í svefnherbergi hans ýtt henni í gólfið og sparkað ítrekað í höfuð hennar og búk en við spörkin slóst höfuð hennar utan í rúmgrind og rúmföt úr járni.

10 mánaða gömul dóttir var á staðnum

 Það var faðir mannsins sem hringdi í neyðarlínuna og bað um aðstoð, þar sem hann réði ekki við son sinn.  Lögregla fór heim til hans og handtók manninn sem varðist handtökunni af öllum mætti og var æstur, ölvaður og blóðugur í andliti og á höndum, eftir því sem segir í frumskýrslu lögreglu.  

Faðirinn greindi frá því að sonur hans hefði lagt hendur á fyrrverandi sambýliskonu sína eftir rifrildi og brotið rúðu á efri hæð hússins.  Dóttir þeirra var á staðnum tíu mánaða gömul.

Dómari féllst á það með ákæruvaldinu að maðurinn hafi gerst sekur um að hafa beitt fyrrverandi sambýliskonu sína ofbeldi og var hann dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ofbeldið, fyrir að hafa stolið peningum af reikningi hennar, móðgað hana og smánað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert