Tryggvi og Hanna Birna boðuð á fund

Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis og Hanna Birna Kristjánsdóttir verða bæði …
Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis og Hanna Birna Kristjánsdóttir verða bæði boðuð á fund nefndarinnar.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra verða bæði boðuð á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þegar fyrirhugað álit umboðsmanns liggur fyrir í næstu viku.

Þetta staðfestir Ögmundur Jónasson, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.

„Ákveðið var að fá umboðsmann Alþingis, sem sinnir eftirlitshlutverki fyrir hönd þingsins, á fund nefndarinnar eftir að hann hefur komist að niðurstöðu í málinu og kynna okkur þær niðurstöður. Síðan hefur einnig verið ákveðið að fá innanríkisráðherra á fund nefndarinnar til að svara ýmsum spurningum sem snúa að þessu máli og samskiptum hennar við Alþingi,“ segir Ögmundur.

Aðspurður segir Ögmundur að lengi hafi legið fyrir að Tryggvi og Hanna Birna kæmu á fund nefndarinnar þegar niðurstaða umboðsmanns lægi fyrir. „Samkvæmt þingskapalögum nægir að þrír þingmenn í nefndinni fari þess á leit að þessi háttur verði hafður á og hefur aldrei komið til atkvæðagreiðslu um málið,“ segir Ögmundur.

Ögmundur vill ekki greina nánar frá efni þeirra spurninga sem Hanna Birna á nú von á. „Það verða ýmsar spurningar. Hverjum og einum þingmanni sem á sæti í nefndinni gefst kostur á að beina spurningum til ráðherrans.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert