Stórbrotna Ísland

Stilla úr stiklu úr heimildarmyndinni Amazing Iceland - A journey …
Stilla úr stiklu úr heimildarmyndinni Amazing Iceland - A journey to the elements. Stilla/Lumen Art Studio

Þjóðverjinn Daniel Haußmann og framleiðslufyrirtæki hans Lumen Art Studio sérhæfa sig í öðruvísi brúðkaupsvídeóum. Flygildi, eða drónar, koma þar m.a. við sögu en þau komu einnig vel að notum þegar Daniel kom hingað til lands í september sl. til að taka upp heimildarmynd um náttúruöflin á Íslandi.

„Heimilarmyndin verður um 20 mínútur að lengd og eitt af því sem gerir hana sérstaka er að við komum með dróna með okkur til að taka loftmyndir,“ segir Daníel, sem heimsótti margar af helstu náttúruperlum Íslands á ferð sinni um landið. „Við vildum ná þessum loftmyndum til að fá annað sjónarhorn, bæði fyrir þá sem hafa komið til Íslands og langar að sjá landið á annan hátt, og fyrir fólk sem langar að fara þangað og vantar innblástur,“ segir hann.

Stefnt er að útgáfu myndarinnar 21. desember næstkomandi og verður hægt að nálgast hana á heimasíðu fyrirtæksins, lumen-art-studio.de. Myndin skiptist niður eftir náttúruöflunum; fyrst er fjallað um fossa, þá jörð, ís og loks eld.

Hér fyrir neðan má sjá magnaða stiklu úr heimildarmyndinni.

Þegar Daniel kom í september var það í fyrsta sinn sem hann heimsótti landið. „Við höfðum dálitlar áhyggjur af því að eldgosið myndi hafa áhrif á flugumferð, þannig að við vorum pínu skelkuð,“ segir hann. Eldgosið reyndist þó ekki aðeins skaðlaust hvað varðaði ferðaáætlanir, heldur fékkst tækifæri til að fljúga yfir eldsumbrotin, sem Daniel gerði með ljósmyndaranum Erez Marom, sem mbl.is ræddi við í gær. „Þetta var ótrúlega sjón,“ segir Daniel um eldgosið.

Myndbandið hér fyrir neðan tók Daniel af gosinu í Holuhrauni.

Daglegt brauð Daniel og félaga eru brúðkaupsvídeó en þeir tóku einmitt eitt slíkt upp á meðan þeir dvöldu á Íslandi. Þeir fylgja brúðhjónunum eftir allan daginn og safna ógrynni af efni, sem er svo klippt niður í fimm mínútna hágæðaminningu.

„Við klippum þetta niður í stutt myndband sem er áhugavert fyrir aðra að horfa á. Svo þetta verði ekki þetta tveggja tíma epíska brúðkaupsvídeó sem fólk sofnar yfir eftir 50 mínútur,“ segir Daniel og hlær. „Markmið okkar er að fólk geti horft á þetta tíu sinnum. Við fáum símtöl frá brúðum sem segja: í gær horfði ég á þetta tíu sinnum í röð. Við leggjum líka mikið í tökur með drónum og öllum mögulegum búnaði til að búa til besta og tilfinningaþrungnasta brúðkaupsmyndband sem við getum gert.“

Facebooksíða heimildarmyndarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert