„Þetta er bara pjúra þjófnaður“

Reynir Traustason, fyrrverandi ritstjóri DV.
Reynir Traustason, fyrrverandi ritstjóri DV. mbl.is/Ómar

„Ég hef leitað ráða hjá lögreglunni og ég mun væntanlega leggja fram kæru. En þetta er komið til Persónverndar og ég er bara að velta fyrir mér hver séu næstu skref. Það væri náttúrulega best að menn játuðu bara og reyndu að finna einhverja sáttaleið en mér sýnist það ekkert vera í spilunum.“

Þetta segir Reynir Traustason, fyrrverandi ritstjóri DV, í samtali við mbl.is en Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður birti um helgina myndir úr handriti af óútgefinni ævisögu Reynis á samskiptavefnum Facebook. Sigurður sagði í samtali við mbl.is um helgina að handritið hefði borist honum innbundið á skrifstofu hans. Hann vissi ekki hver hefði sent það en teldi sig engu að síður í fullum rétti að birta myndirnar.

„Eins og brotist hefði verið inn á heimili mitt“

Reynir segist hafa sent handritið með tölvupósti á tvo fyrrverandi starfsmenn DV til yfirlestrar en fyrir mistök hafi það farið á netföng sem þeir höfðu áður hjá DV en hafi ekki aðgang að lengur. Enginn vafi sé í hans huga að þaðan hafi handritið borist til Sigurðar. „Þetta er eins og brotist hefði verið inn á heimili mitt og bókum hreinlega stolið - eða jafnvel enn verra.“

Reynir segist aðspurður hafa rætt óformlega við lögregluna og reikni með að klára þau mál í dag eða í fyrramálið. „Ég sé eiginlega enga ástæðu til annars en að þetta mál fái framgang. Þetta er ekki boðlegt. Það er bara þannig. En ég mun leggja fram þau gögn sem ég hef sem eru afrit af tölvupóstsamskiptum manna á milli.“

Ekki á því stigi að fara fyrir almenningssjónir

„Fyrir mér er þetta mjög einfalt. Þetta er einkapóstur, þetta á ekki erindi fyrir augu annarra og á ekki erindi í dreifingu. Sem þýðir að þetta er bara pjúra þjófnaður á hugverki,“ segir Reynir ennfremur. Handritið sé auk þess ekki á því stigi að það sé að fara fyrir almenningssjónir, hann eigi eftir að fara yfir það og íhuga hvað verði í endanlegri útgáfu.

„Það er ennþá verra að vera að dreifa einhverju sem ég hef ekkert ætlað að láta fara fyrir almenningssjónir fyrr en ég verð búinn að skoða það og greina,“ segir Reynir. Vísar hann ennfremur í frétt mbl.is um helgina þar sem Sigurður játi að hafa handritið undir höndum og „segist eiga rétt á að birta úr þessu á Facebook sem ég skil ekki hvernig í ósköpunum hann getur fengið út.

„Það sem vakir fyrir mér er bara að upplýsa þetta og reyna að útiloka að menn hegði sér með þessum hætti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert