Bað Sigríði um upplýsingar um Omos

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrst af öllu vil ég undirstrika að samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara, áttu umrædd samskipti mín við Gísla Frey Valdórsson sér stað eftir að minnisblaði um hælisleitandann Tony Omos var lekið til fjölmiðla. Það hefur legið ljóst fyrir og kemur skýrt fram í gögnum málsins samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara.“

Þetta segir m.a. í yfirlýsingu frá Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, vegna umfjöllunar DV í dag. DV segist í frétt sinni hafa heimildir fyrir því að Gísli Freyr og Sigríður hafi rætt saman í síma daginn sem fréttir um hælisleitandann Tony Omos birtust í fjölmiðlum. Fréttirnar voru byggðar á minnisblaði innanríkisráðuneytisins sem Gísli Freyr hefur játað að hafa komið til fjölmiðla. 

„Á þessum tíma voru, eins og algengt er, töluverð samskipti á milli ráðuneytisins og embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum um ýmis mál, enda ber embættinu að veita ráðuneyti, sem æðra stjórnvaldi, þær upplýsingar er það óskar,“ segir Sigríður um samskipti sín við Gísla þennan dag. Sigríður hefur óskað eftir því við ríkissaksóknara fá upplýsingar um símtölin sem DV vitnar til í umfjöllun sinni, með vísan til 1. mgr. 1. gr. fyrirmæla ríkissaksóknara nr. 1/2013 um aðgang að gögnum sakamála sem er lokið.

„Að morgni 20. nóvember 2013 átti ég, skv. gögnum frá ríkissaksóknara, tvö símtöl við Gísla Frey Valdórsson. Áður hafði ég hringt í hann til að svara skilaboðum en hann svaraði ekki. Gísli Freyr hringdi í mig kl. 09:41:55 og aftur kl. 09:56:53,“ skrifar Sigríður í yfirlýsingu sinni.

„Í samtölum okkar óskaði Gísli Freyr m.a. eftir greinargerð frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum um málefni Tony Omos er tengdust m.a. hælisumsókn hans og því að hann var eftirlýstur á þessum tíma og talinn vera í felum á Suðurnesjum. Umbeðin greinargerð var send Gísla Frey að kvöldi 20. nóvember kl. 21.21.

Ekkert í samskiptum okkar Gísla Freys gaf til kynna að hann hafi lekið upplýsingum til fjölmiðla. Vitneskju mína um margrætt minnisblað hef ég úr fjölmiðlum og ég heyrði fyrst af játningu Gísla Freys í fjölmiðlum.“

Sigríður segir að samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara í dag liggi fyrir „að þær trúnaðarupplýsingar sem Gísli Freyr Valdórsson var sakfelldur fyrir að láta af hendi skv. dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-651/2014 lét hann fjölmiðlum í té (blaðamanni á Fréttablaðinu) fyrir kl. 22.50 að kvöldi 19. nóvember 2013. Þetta kemur fram í rannsóknargögnum lögreglu sbr. einnig dómur Hæstaréttar í máli nr. 403/2014 en þar segir m.a.:

„Af hálfu sóknaraðila kemur fram að í frétt sem birst hafi á forsíðu Fréttablaðsins 20. nóvember sl. sé fjallað um málefni A og að fréttin virðist vera byggð á umræddu minnisblaði. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi blaðið farið frá ritstjórn í prentun um kl. 22:50 hinn 19. nóvember. Þá hafi birst frétt um sama efni á mbl.is að morgni 20. nóvember sl., kl. 10:55. Í fréttinni komi fram að mbl.is hafi undir höndum „óformlegt minnisblað innanríkisráðuneytisins“ og megi ljóst vera að fréttin sé byggð á minnisblaðinu.““

Gísli Freyr Valdórsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í forgrunni er Jóhann …
Gísli Freyr Valdórsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í forgrunni er Jóhann Páll Jóhannsson, blaðamaður DV. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert