Ber að segja barni frá staðgöngumæðrun

Foreldrar barns sem fætt er af staðgöngumóður skulu skýra barni …
Foreldrar barns sem fætt er af staðgöngumóður skulu skýra barni sínu frá því jafnskjótt og það hefur þroska til að það sé fætt af staðgöngumóður. AFP

Bannað verður að auglýsa staðgöngumæðrun og óheimilt er að greiða staðgöngumóður fyrir annað en útlagðan kostnað. Foreldrar barns sem fætt er af staðgöngumóður skulu skýra barni sínu frá því jafnskjótt og það hefur þroska til að það sé fætt af staðgöngumóður.

Samkvæmt lagafrumvarpi um staðgöngumæðrun í velferðarskyni, sem nú hefur verið lagt fram til umsagnar, er væntanlegum foreldrum heimilt að inna af hendi og staðgöngumóður að taka við endurgreiðslu á hæfilegum útlögðum kostnaði hennar sem er í beinum tengslum við
glasafrjóvgun, meðgöngu og fæðingu barnsins, svo sem vegna nauðsynlegra lyfja,
heilbrigðisþjónustu, ferðakostnaðar, fatnaðar, líkamsræktar eða stuðningsbúnaðar. Óheimilt er að bjóða, inna af hendi eða taka við peningagreiðslum eða annarri umbun í tengslum við staðgöngumæðrun umfram endurgreiðslu á útlögðum kostnaði staðgöngumóður.

Staðgöngumóðir verður að hafa átt lögheimili hér á landi síðustu fimm árin. Sé hún í sambúð eða hjúskap skal samfelld sambúð hafa varað í að minnsta kosti þrjú ár. Staðgöngumóðir eða maki hennar má ekki vera systir eða bróðir eða skyld í beinan legg því væntanlega foreldri sem leggur til kynfrumu við getnað barnsins.

Við staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verður skylt að nota kynfrumu frá að minnsta kosti öðru
væntanlegra foreldra. Eingöngu er heimilt að nota gjafakynfrumu við staðgöngumæðrun hjá einhleypum einstaklingi eða ef frjósemi annars væntanlegs foreldris  er skert, um er að ræða alvarlegan erfðasjúkdóm eða aðrar læknisfræðilegar ástæður mæla  með notkun gjafakynfrumu.

Heimilt er að geyma fósturvísa væntanlegra foreldra í þeim tilgangi að nota þá við
staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni í þeirra þágu.

Þegar sótt er um staðgöngumæðrun þurfa ýmis gögn að fylgja, m.a. upplýsingar um fjárhagsstöðu, skattaframtöl og upplýsingar um heilsufar. Þá þurfa umsækjendur að samþykkja að nefnd um staðgöngumæðrun afli upplýsinga úr sakaskrá. 

Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni metur hvort hagsmunir barns verði
tryggðir og öllum skilyrðum staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni sé fullnægt.

Hver kona getur að hámarki þrisvar sinnum fengið leyfi til staðgöngumæðrunar í
velgjörðarskyni. Óheimilt er veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni á fleiri en einni  staðgöngumóður fyrir hverja væntanlega foreldra á hverjum tíma. Óheimilt er að veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni ef væntanlegir foreldrar eiga von á barni, eru í tæknifrjóvgunarmeðferð eða í virku ættleiðingarferli. Óheimilt er að veita leyfið hafi umsækjendur hlotið dóm fyrir brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga eða hlotið refsidóm sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni þeirra til að veita barni gott uppeldi.

Staðgöngumóðir telst móðir þess barns sem hún elur, samanber ákvæði barnalaga. Maki
staðgöngumóður telst faðir eða foreldri barnsins samkvæmt sömu lögum. Staðgöngumóðir, og eftir atvikum maki hennar, fara með forsjá barns fram að yfirfærslu á foreldrastöðu nema um annað sé sérstaklega samið samkvæmt ákvæðum barnalaga.

Barnið hefur rétt á upplýsingum

Foreldrar barns sem fætt er af staðgöngumóður skulu skýra barni sínu frá því jafnskjótt
og það hefur þroska til að það sé fætt af staðgöngumóður. Skal það að jafnaði gert eigi síðar
en er barn nær sex ára aldri. Barn sem fætt er af staðgöngumóður getur er það nær 16 ára aldri óskað eftir aðgangi að upplýsingum frá heilbrigðisstofnun þeirri sem framkvæmir staðgöngumæðrunina, m.a. hvaðan kynfrumur koma.

Hvers konar auglýsingar vegna staðgöngumæðrunar eru óheimilar. Það varðar sektum að lágmarki 500.000 kr., eða fangelsi allt að þremur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum laganna.

Hér má lesa frumvarpið í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert