Kenndi þingheimi að fara fram hjá lögbanni

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Rósa Braga

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, gagnrýndi að tækniþekking væri gerð tortryggileg í tengslum við lögbann sýslumanns á starfsemi skráaskiptisíðnanna Deildu og Piratebay. Kenndi hann þingmönnum að fara fram hjá lögbanninu með því að leita á leitarvélinni Google.

Hann vísaði til greinar sem Tómas Jónsson, lögmaður STEF, ritaði þar sem hann gagnrýndi þingmenn fyrir að hóta að kenna fólki hvernig ætti að fara fram hjá lögbanni sýslumanns á starfsemi síðnanna. Það hafi verið skömmu eftir þingræðu sem hann hélt þar sem hann sagði að auðvelt væri að fara í kringum bannið.

Þannig væri fram komið það sem Helgi Hrafn hafi sjálfur spáð í upphafi, að byrjað yrði að gera grunnþekkingu á tækni Internetsins tortryggilega. Því sagðist hann ætla að kenna þingheimi að fara í kringum bannið með einföldum hætti.

„Farið á Google. Stimplið inn „Access Piratebay“. Smellið á „enter“. Smellið á fyrsta tengilinn. Þetta er hin ógurlega undirheimatækniþekking sem menn ætla væntanlega að forða frá augum almennings. Hvað er þá að til ráða annað en að ganga lengra, lengra og lengra,“ sagði Helgi Hrafn.

Ítrekaði hann að baráttan til að koma í veg fyrir höfundarréttarbrot væri vonlaus og tími væri kominn til að breyta lögum um höfundarrétt til þess að tryggja hagsmuni listamanna betur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert