Sárasóttartilfellum meðal karlmanna fer ört fjölgandi

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Alls hafa 17 karlar greinst með sárasótt (sýfilis) á Íslandi á þessu ári. Á sama tímabili hefur engin kona greinst með sýkinguna. Flestir karlanna, þ.e. 15 af 17, höfðu stundað kynlíf með körlum.

Þetta er meira en þreföld aukning miðað við fyrri ár því að síðastliðin ár hafa árlega greinst 2–5 einstaklingar með sárasótt. Uppruni sýkinga á undanförnum árum hefur yfirleitt verið erlendur, en sýkingarnar í ár eru flestar af innlendum toga, að því er fram kemur á vef landlæknis.

„Sýkingahrinur af völdum sárasóttar og annarra kynsjúkdóma eru vel þekktar meðal karla sem stunda kynlíf með körlum í öðrum löndum, einkum í stórborgum, en sýkingarnar hafa einnig dreifst út til gagnkynhneigðra einstaklinga.

Sóttvarnalæknir vill einnig vekja athygli á því að árlega greinast flest tilfelli af klamydíu á Íslandi miðað við önnur lönd Evrópu.

Það er því full ástæða til að minna á ábyrgð hvers og eins að verja sjálfan sig og aðra gegn sjúkdómum sem smitast við kynmök,“ segir ennfremur á vef landlæknis.

Nánar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert