Assange gefur skýrslu í gegnum síma

Julian Assange.
Julian Assange. AFP

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þar sem fallist var á kröfu ákæruvaldsins um að Julien Assange, stofnandi Wikileaks, gefi skýrslu fyrir dómi í gegnum síma í fjársvikamáli gegn Sigurði Inga Þórðarsyni, sem er betur þekktur sem Siggi Hakkari.

Málið gegn Sigurði var þingfest í júní sl. vegna fjársvika, þjófnaða, eignarspjalla og skjalafals. Stærsti ákæruliðurinn varðar 6,7 milljóna króna fjársvik en í ákæru segir að Sigurður hafi blekkt eiganda vefverslunar til að millifæra fjármunina inn á reikning sinn í stað þess að leggja hann inn á reikning Wikileaks. Um var að ræða ágóða af sölu varnings til stuðnings uppljóstrarasíðunni.

Samkvæmt ákærunni sagði Sigurður eiganda vefverslunarinnar að hann starfaði í umboði Assange og hefði því heimild hans til að fara fram á að peningurinn yrði lagður inn á umræddan reikning. Sigurður Ingi er ákærður fyrir að hafa nýtt sér féð í eigin þágu.

Assange hefur hafst við í sendiráði Ekvadors í London í um tvö ár. Ákæruvaldið fór fram á að hann fengi að bera vitni í gegnum síma en Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Sigurðar Inga, sagði óhjákvæmilegt að Assange kæmi fyrir dóminn til að bera vitni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert