Hrýs hugur við ástandinu

Læknar og annað starfsfólk bráðamóttöku LSH.
Læknar og annað starfsfólk bráðamóttöku LSH. mbl.is/Golli

„Það er hægt að draga þetta saman í ósköp einfalda setningu: það er ekki hægt að reka heilbrigðiskerfi án lækna. Það er ósköp einfalt. Og það er ansi kuldalegt að þurfa að segja þessa setningu, það er hálf súrrealískt ef ég á að segja eins og er.“

Þetta segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, um stöðu mála í heilbrigðiskerfinu í dag. Hann segir mikið tjón hafa orðið í verkfalli lækna, sem staðið hefur yfir frá 27. október sl., en það sé fyrst og fremst fólgið í gríðarlegri uppsöfnun verkefna, sem verður erfitt að vinna úr þegar yfir líkur, þar sem svigrúmið sé lítið sem ekkert.

Þá segir Ólafur skelfilegt ef læknar fara að leita annað með vinnu vegna ástandsins.

„Það liggur fyrir í þeim tölum sem spítalinn hefur nú þegar birt að truflun á þjónustu hefur verið gríðarlega mikil,“ segir Ólafur. „Við skulum átta okkur á því að rúmanýting og skurðstofunýtingin líka eru nánast 100% hjá okkur, sem vekur upp spurninguna: hvernig á að vera hægt að vinna þetta niður? Það er aldrei nein pása á spítalanum,“ segir hann.

Ólafur bendir á mæla á ytri vef Landspítalans, þar sem fylgjast má með daglegum verkum á spítalanum. Þau séu mörg og minnsta truflun dragi úr þjónustu og ógni mögulega öryggi. „Verkfallið sem slíkt hefur nákvæmlega þessi áhrif. Og þar erum við stödd. Tölurnar tala sínu máli,“ segir hann, en ítrekar að öll bráðaþjónusta sé að sjálfsögðu veitt.

„Sem betur fer er ekkert til sem heitir alsherjarverkfall lækna, því það er að sjálfsögðu óframkvæmanlegt,“ segir hann.

Gengur ekki að glíma við fjárskort ár eftir ár

Hvað varðar skynjun fólks á verkfallinu, segir Ólafur það aðeins eitt af þeim vandamálum sem steðja að heilbrigðiskerfinu, en jafnframt það stærsta og alvarlegasta. Hann segir það hafa áhrif á umræðuna nú að hún sé opnari en áður, en opnari og meiri umræða sé þáttur í því að gera spítalann betri.

En er þessi mikla umræða um heilbrigðismál að skila einhverju?

„Hún skilar miklu inn á við, þ.e.a.s. það er gríðarleg sókn hérna innanhúss í gæðamálum,“ segir Ólafur. „Skilvirknin hefur aukist gríðarlega í mörgum verkum. Ef þú skoðar framleiðslu á mann þá hefur hún stóraukist á undanförnum árum. Og það byggist á gæða- og skilvirknikerfi sem við erum með í gangi,“ segir hann. Mun lengri tíma taki hins vegar að merkja þennan afrakstur utan frá.

Ólafur segir að haldið verði áfram á þessari vegferð en viðurkennir aðspurður að henni verði ekki lokið ef ekki fæst fé til verksins, þ.e.a.s. til að reka spítalann, greiða laun heilbrigðisstarfsfólks og endurnýja byggingar. „Baráttan þyngist ef það eru uppi rekstrarleg vandamál á hverju einasta ári,“ segir hann.

Læknar tala um að leita annað

Ólafur segir ljóst að því lengur sem verkfallið varir, því lengri tíma muni taka að vinna úr uppsöfnuðum verkefnum. Þá varar hann við öðru tjóni sem kann að verða, en erfiðara er að mæla.

„Ég er að heyra það núna frá a.m.k. nokkrum læknum sem ég hef talað við að einhverjir læknar séu farnir að hugsa sér til hreyfings og það er viðbótarvandamál. Við tölum um að verkfall af þessu tagi sé mjög alvarlegt mál sem við höfum miklar áhyggjur af, en það að menn séu að velta fyrir sér að fara er annað og miklu, miklu alvarlegra mál. Bara að heyra þessar umræður síðustu daga gerir það að verkum að manni hrýs hugur við ástandinu,“ segir Ólafur. „Verkfall er eitt, það er yfirleitt eitthvað sem leysist, en brottfall fólks; það er algjörlega skelfilegt.“

Aðspurður segir Ólafur menn vissulega hafa haft áhyggjur af því að fólk sem kennir sér mein fresti því að leita til læknis vegna verkfallsins. „Ég hef ekki í höndunum neinar sannanir fyrir því, en það kæmi mér alls ekki á óvart þó að fólk myndi bregðast þannig við,“ segir hann.

Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga hjá LSH.
Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga hjá LSH.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert