Jólapeysur gegn einelti

Jólapeysan, fjáröflunarátak Barnaheilla – Save the Children á Íslandi gegn einelti, var ýtt úr vör á leikskólanum Kirkjubóli í Garðabæ í dag. Hljómsveitin Pollapönk styður átakið og þeir tóku lagið með börnunum.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, ýtti átakinu úr vör ásamt Ernu Reynisdóttur, framkvæmdastjóra Barnaheilla, með því að klæða Bangsann Blæ í jólapeysu. Gunnar tilkynnti við þetta tækifæri að hann hefði ákveðið að taka áskorun um að fara í jólapeysu í hot jóga, safnist nægilega mikið í áheitum á hann, að því er segir í tilkynningu.

„Í ár er safnað er fyrir Vináttu, forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti í leikskólum, en þangað má oft rekja rætur eineltis. Vinátta er starfrækt á Kirkjubóli í tilrauna- og aðlögunarskyni, en markmiðið er að bjóða það öllum leikskólum landsins með hjálp Jólapeysunnar.

Bangsinn Blær er táknmynd vináttunnar og bíður þess með hjálp Jólapeysunnar að faðma, hugga og gleðja börn á öllum leikskólum á Íslandi.

Jólapeysan 2014 snýst um að standast áskorun, íklædd jólapeysu. Opnað hefur verið fyrir skráningu á jolapeysan.is. Þar er hægt að skrá sig til leiks, finna upp á áskorun og hvetja vini og vandamenn til að heita á sig,“ segir ennfremur í tilkynningu.

Nánar um átakið hér.

Hér má sjá myndskeið sem sýnir þátttakendur lýsa því sem þeir ætla að gera og af hverju þeim finnst mikilvægt að vinna gegn einelti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert