Mikil ásókn er í nýju deildina

Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri Hestamannafélagsins Spretts, er einn af skipuleggjendum deildarinnar.
Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri Hestamannafélagsins Spretts, er einn af skipuleggjendum deildarinnar. mbl.is/Ómar

Hestamannafélagið Sprettur hefur stofnað áhugamannadeild Spretts. Um er að ræða keppnisröð fjögurra móta sem haldin eru annan hvern fimmtudag frá byrjun febrúar og fram í mars. Keppt er í jafn mörgum keppnisgreinum. Lið skipað fjórum knöpum keppist um að ná sem bestum árangri. Mótaröðin er að fyrirmynd meistaradeildarinnar í hestaíþróttum sem hefur verið haldin um árabil í Ingólfshöllinni í Ölfusinu. Áhugamannadeildin verður í nýju reiðhöll Spretts í Kópavogi.

„Áhuginn er gífurlega mikill. Fyrst stefndum við að því að skrá í mesta lagi 10 lið en þau eru orðin 14 talsins og tvö bíða eftir að komast að,“ segir Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri hestamannafélagsins Spretts og skipuleggjandi áhugamannadeildarinnar. Hann segir mikinn áhuga hafa komið sér á óvart. „Þó það sé fullt af öðrum mótum í boði þá er greinilega hópur af fólki sem langar að keppa sem liðsheild og hafa gaman af því,“ segir Magnús og lofar mikilli skemmtun. Veitt verða verðlaun fyrir skemmtilegasta liðið og stuðningsmenn.

Magnús segir áhugamenn eiga mjög góða hesta og búa yfir miklum metnaði til að bæta sig. „Þessir eiginleikar eiga eftir að blómstra í deildinni og margir eru þegar búnir að taka hestana sína inn og byrjaðir að undirbúa sig. Þetta hleypir lífi í hestamennskuna mun fyrr en annars.“

Liðin eru mörg hver komin með þjálfara sem kemur úr röðum atvinnumanna. Það er ljóst að allir eiga eftir að bæta í reynslubankann.

Skilyrði fyrir þátttöku eru að vera áhugamaður, það er að segja að hafa ekki atvinnu af þjálfun eða reiðkennslu, þá má knapinn ekki heldur hafa keppt í meistaraflokki.

Fjórir eru í liði en þrír keppa fyrir liðið á hverju móti. Keppt er í tölti, slaktaumatölti, fjórgangi og fimmgangi.

Fólki er frjálst að nefna liðin hvaða nafni sem er, til dæmis heitir eitt liðanna Poulsen sem vísar væntanlega til styrktaraðila. Á hverju móti verður eitt fyrirtæki með skemmtilega kynningu á starfsemi sinni.

Að mótunum loknum verður haldið hressilega upp á árangurinn.

Fyrsta mótið er 5. febrúar næstkomandi þar sem keppt er í fjórgangi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert