„Nei, ég borgaði ekkert“

Ingunn Wernersdóttir mætir í dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Ingunn Wernersdóttir mætir í dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Nei, ég borgaði ekkert,“ sagði Ingunn Wernersdóttir fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur eftir hádegið í dag þegar saksóknari spurði hana út í 600 milljón króna víkjandi lán sem hún veitti Sjóvá - Almennum tryggingum á árinu 2006. Hún staðfesti þar með að hafa ekki látið Sjóvá fá krónu af láninu.

Í mál­inu eru Guðmund­ur Ólason, fv. for­stjóri Milest­one, Karl Werners­son, fv. stjórn­ar­formaður, og Stein­grím­ur Werner­son, fv. stjórn­ar­maður, ákærðir vegna greiðslna til Ing­unn­ar Werners­dótt­ur fyrir hluti hennar í Milestone, Milestone Import Export og Leiftra en þær námu á sjötta millj­arð króna á árunum 2006 og 2007.

Jafn­framt eru end­ur­skoðend­urn­ir Hrafn­hild­ur Fann­geirs­dótt­ir, Mar­grét Guðjóns­dótt­ir og Sig­urþór Char­les Guðmunds­son, öll frá end­ur­skoðun­ar­fyr­ir­tæk­inu KPMG, ákærð fyr­ir brot gegn lög­um um end­ur­skoðend­ur. Þau Mar­grét og Sig­urþór eru enn­frem­ur ákærð fyr­ir meiri­hátt­ar brot á lög­um um árs­reikn­inga vegna viðskipt­anna.

Sjóvá ekki enn greitt

Meðal þess sem greinir frá í ákæru er að það hafi verið látið líta svo út að Sjóvá hefði tekið víkj­andi lán hjá Ing­unni, sem Sjóvá skyldi end­ur­greiða með vöxt­um. „Karl kom til mín og spurði hvort ég gæti lánað þeim sex hundruð milljónir og ég sá ekkert því til fyrirstöðu. Þetta var útfært á þann hátt að ég átti víkjandi samning á Sjóvá. Sjóvá borgaði mér vexti og ég fékk greiðslur frá Sjóvá ábyggilega í rúmt ár.“

Saksóknari: „Greiddir þú sex hundruð milljónir til Sjóvá?“

Ingunn: „Nei, ég borgaði ekkert. Ég var bara beðin um að gera hlé á greiðslum upp á sex hundruð milljónir. Þetta var bara þeirra mál að útfæra.

Saksóknari: „Höfðu þessir samningar áhrif á greiðslurnar [fyrir hlutina í Milestone] til þín?

Ingunn: „Já, það voru sex hundruð milljónir sem fóru í gegnum Sjóvá eða hvernig sem það var gert. Ég fékk enga peninga. Þetta var skrifað sem víkjandi lán sem Sjóvá skuldaði mér og þeir skulda mér þetta ennþá. Ég hef ekkert fengið þetta greitt.“

Skýrt hefur verið frá því að þegar líða tók á árið 2006 hafi Milestone lent í vand­ræðum með að greiða Ing­unni á rétt­um tíma vegna fjár­hags­vand­ræða. Í gær kom fram að greiðslubyrðin hefði verið minnkuð með því að greiða Ingunni ekki 150 milljónir í fjóra mánuði, eða sex hundruð þúsund. Í ákæru seg­ir að í stað þess hafi verið látið líta svo út að Sjóvá hefði tekið 600 milljón króna víkj­andi lán hjá Ing­unni. Í bók­haldi Sjóvár var svo í kjölfarið færð krafa á hend­ur Milest­one, móður­fé­lagi Sjóvá, upp á sömu upphæð. 

Gaf ekki upp hvers vegna hún seldi

Ingunn sagðist hafa setið í stjórn Milestone áður en hún seldi hluti sína en að hún hafi ósköp annað lítið gert innan félagsins. Þrátt fyrir að hún hafi verið skráð sem stjórnarformaður á árinu 2005 hafi hún ekki verið starfandi stjórnarformaður. Hún hafi svo seint á árinu ákveðið að draga sig út úr félaginu. „Ég vildi selja mig út, og við gerðum samning. Þetta byrjaði í nóvember og skrifað var undir samning 5. desember 2005. Þa´var ég að selja allan minn hlut, þeir [Karl og Steingrímur] höfðu forkaupsrétt og ákváðu að nýta hann. Svo var dreginn upp samningur og borgað eftir honum.“

Aðspurð sagðist Ingunn ekki vilja gefa upp hvers vegna hún seldi hluti sína í Milestone, bar við að það persónulegar ástæður lægju að baki.

Uppfært klukkan 15.52:

Verjandi eins sakborninga í málínu vill árétta eftirfarandi:

„Ingunn eignaðist kröfu á Sjóvá-Almennar samkvæmt víkjandi lánasamningum að fjárhæð kr. 600 milljónir. Þetta fékk hún í staðinn fyrir 600 mkr. greiðslu samkvæmt samningunum við bræður sina. Milestone ehf. greiddi Sjóvá þessa peninga sem IW hefði annars fengið, ef hún hefði ekki samþykkt að lána Sjóvá þessa peninga. Skjöl málsins eru alveg skýr um þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert