Ragnheiður fékk lykilinn að Granada

Borgarstjórinn Julia Mena veitti ráðherra lykilinn að Granada.
Borgarstjórinn Julia Mena veitti ráðherra lykilinn að Granada.

Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem er í opinberri heimsókn í Níkaragva, var í gær veittur lykilinn að Granadaborg, en hann er alla jafnan einungis veittur þjóðhöfðingjum annarra ríkja.

Ragnheiður fer fyrir viðskiptasendinefnd tíu íslenskra fyrirtækja. Markmiðið er að skoða mögulega aðkomu fyrirtækjanna að sjálfbærri orkuvinnslu í landinu, að því er segir í tilkynningu á vef atvinnuvegaráðuneytisins.

Í gær undirritaði Ragnheiður viljayfirlýsingu af hálfu Íslands, að viðstöddum forseta landsins, um að efla samstarf við Níkaragva á sviði hagnýtingar endurnýtanlegra orkugjafa. Viljayfirlýsingin felur í sér að löndin tvö muni efla samvinnu sín á milli, m.a. hvað varðar þekkingu á sviði endurnýjanlegrar orku. 

Á sama fundi undirritaði ENEL, orkufyrirtæki Níkaragva, og Icelandic Geothermal Power S.E. viljayfirlýsingu um þróun auðlindagarðs í landinu á jarðhitasvæðunum Masaya, Apoyo og Mombacho. Áætlað virkjanlegt afl svæðisins er talið 363 MW. Til viðbótar felur viljayfirlýsingin í sér aðkomu fyrirtækisins að tveimur vatnsaflsvirkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert