Ákveðinn varningur fær fríðindameðferð

mbl.is/Hjörtur

Varningur að verðmæti 600 bandaríkjadala (74.130 íslenskar krónur) eða minna sem sendur er til landsins hlýtur svokallaða fríðindameðferð.

Það þýðir að hann er undanþeginn tolli sé sannað að hann hafi verið sendur frá Kína og hafi verið undir tolleftirliti í mögulegum viðkomulöndum við flutninginn þaðan og kominn til  Íslands.

Þetta kemur fram í frétt á vef Tollstjóra. Í fréttinni kemur jafnframt fram að þetta sé samkvæmt gildandi fríverslunarsamningi milli Íslands og Kína.

„Þessu er komið á framfæri, þar sem upp hafa komið nokkur mál þar sem vörusendingar, sem pantaðar hafa verið í gegnum kínverska netverslun  hafa verið sendar frá öðrum löndum, t.d. Hollandi, Sviss, Singapore, án þess að fram hafi komið að upphaflega voru þær fluttar frá Kína og hafi verið undir tolleftirliti við umflutningi um önnur lönd. Í þessum tilvikum hefur fríðindameðferð verið hafnað hafi innflytjandi/móttakandi ekki getað fært sönnur á að sendingin hafi lagt upp frá Kína og að umflutningurinn þaðan hafi uppfyllt áðurnefnd ákvæði, enda skilyrði ofangreinds samnings þá ekki talin uppfyllt,“ segir m.a. í fréttinni sem má sjá í heild sinni hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert