Brunavörnum ábótavant en eru batnandi

Frá eldvarnaræfingu í Flataskóla í dag.
Frá eldvarnaræfingu í Flataskóla í dag.

Þótt eldvörnum marga heimila sé verulega ábótavant sýnir ný rannsókn Capacent Gallup að eldvarnir heimila eflast almennt hægt en örugglega. Slökkvitæki og eldvarnateppi eru nú til á fleiri heimilum og á æ fleiri heimilum eru settir upp tveir reykskynjarar eða fleiri. Þá kemur fram að þeim fækkar sem ekki eiga eitt af þrennu; reykskynjara, slökkvitæki eða eldvarnateppi.

Rannsókn Capacent sýnir að eldvörnum er sérstaklega ábótavant í leiguhúsnæði og hjá yngstu aldurshópunum.  

Þetta segir í tilkynningu frá Landssambandi slökkviliðs og sjúkraflutningamanna.

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, fagnar því að þróun eldvarna sé í rétta átt enda segir hann mikið lagt upp úr fræðslu um eldvarnir, meðal annars með Eldvarnaátaki Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem hefst í dag. 

„Við trúum því að fræðsla um eldvarnir skili árangri og tölurnar tala sínu máli um það. En það er ljóst að þarna eru hópar sem við verðum að ná betur til, leigjendur og ungt fólk.“ segir Björn. Capacent gerði könnunina fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í september og október síðastliðnum. Þátttakendur voru 1.449 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, og var þátttökuhlutfallið 58,9 prósent. 

Könnunin leiðir meðal annars eftirfarandi í ljós:

  • Slökkvitækjaeign hefur aukist úr 61,4% 2006 í 70,5% nú.

  • Tveir eða fleiri reykskynjarar voru á 61,6% heimila 2006 en 68,3% nú.

  • Fjórir eða fleiri reykskynjarar voru á 21,5% heimila 2006 en 31,2 % nú.

  • Mun færri eiga óuppsetta reykskynjara nú en áður.

  • Aðeins 17,3% heimila höfðu gert neyðaráætlun vegna elds 2006 en 29,7% nú.

Þá kom fram að tæplega 30 prósent höfðu fengið í hendur fræðsluefni Eldvarnabandalagsins um eldvarnir. Mikill meirihluti þeirra hafði kynnt sér efnið með því að fletta því lauslega eða lesa það gaumgæfilega. 

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir. Aðild að því eiga:

Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert