Eiga að bjóða upp á viðunandi kjör

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn

Eitthvað hlýtur að hafa farið úrskeiðis þegar þeim sem starfa fyrir stéttarfélög er meinað að gæta réttinda félaga sinna. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Helga Hjörvar, þingflokksformanni Samfylkingarinnar. Helgi vísaði til þess að fulltrúum stéttarfélagsins Eflingar hafi verið meinað að sitja fund sem pólskt ræstingarfólk hafði óskað eftir um kjör sín við fyrirtækið sem það starfar hjá.

„Við hljótum öll að vera hugsi yfir stöðu þess fólks sem hefur starfað að ýmsum verkefnum hjá ríkinu sem hafa síðan verið boðin út, starfskjörum þeirra og aðstæðum. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort við þurfum ekki að tryggja þeim sem hafa verið að vinna fyrir okkur hjá ríkinu mikilvæg störf að þau haldi starfskjörum sínum þó að breytt sé skipulagi, til dæmis með útboði, og tryggja það að eftir útboðið þá sé ekki óhóflega gengið á réttindi þeirra eða lagt á þau aukið vinnuálag og auðvitað ekki síst að aðkoma verkalýðfélaga til þess að tala fyrir réttindum þessa fólks, hún sé tryggð,“ sagði Helgi.

Bjarni benti á að það tiltekna útboð sem um væri að ræða hefði farið fram í tíð síðustu ríkisstjórnar og ef ekki hafi verið tryggt í útboðskilmálunum að launþegar verktakans nytu sannfærandi kjara yrði að taka það til sérstakrar skoðunar. Almennt séð hefði markmiðið með slíkum útboðum verið að gæta að hámarksnýtingu skattfjár. Það væri grundvallaratriði hins vegar að ef einhver missti vinnuna vegna slíkra breytinga að verktakar eða aðrir þeir sem byðu í verkefnin ættu ekki að geta uppfyllt útboðsskilmála ef boðið væri upp á starfskjör eða réttindi sem ekki stæðust þær kröfur sem gerðar væru í íslensku samfélagi.

Frétt mbl.is: „Skrattakollar“ komi fram undir nafni

Frétt mbl.is: Fulltrúar Eflingar máttu ekki sitja fund

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert