Hlýtt áfram en versnandi veður

Spár gera ráð fyrir að hlýindin, sem landsmenn hafa notið að undanförnu og verða að teljast mikil miðað við árstíma, vari fram í næstu viku en eftir helgi gera spár hins vegar ráð fyrir því að veður fari versnandi. Ástæðan er einkum sú að leifarnar af kuldanum sem hrellt hefur íbúa í norðvesturhluta Bandaríkjanna að undanförnu fara að færast austar á bóginn og teygja anga sína hingað samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Þannig er gert ráð fyrir hita á bilinu 4-10 stig á landinu næsta sólarhringinn og hæglætisveðri að mestu og sama er að segja um helgarveðrið. Hitinn fer þó lækkandi. Verður samkvæmt spánni 1-8 stig á laugardag og 0-5 stig á sunnudag og vægt frost inn til landsins. Gert er ráð fyrir 2-8 stiga hita á mánudaginn og 2-7 stigum á þriðjudag. Hins vegar lækkar hitinn töluvert aftur á miðvikudaginn og verður þá á bilinu 0-5 stig.

Veður fer síðan versnandi á mánudaginn eins og fyrr segir. Búist er þannig við hvassri suðaustanátt á mánudaginn og víða rigningu sem síðan snýst í suðvestanstrekking síðdegis með skúrum og hagléljum sunnan- og vestanlands. Sunnanhvassviðri heldur síðan áfram á þriðjudag og rigning á þriðjudag.

Hér má skoða kort þar sem skoða má breytingar á hitatölum á norðurhveli jarðar næstu daga. Þar má sjá hvernig kuldinn yfir Bandaríkjunum fer smám saman að færast austur á bóginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert