Hótaði lögreglumönnum með hnífi

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Aðfaranótt mánudags var óskað eftir lögregluaðstoð í heimahús á Ísafirði vegna manns í sjálfsvígshugleiðingum. Í tilkynningu til lögreglu fylgdu upplýsingar um að maðurinn væri með skurðáverka á handleggjum.

Samkvæmt tilkynningu sem lögreglan á Vestfjörðum hefur sent frá sér vegna málsins, kemur fram að maðurinn hafi hótað lögreglumönnum með hnífi og vegna ógnandi tilburða hans neyddist lögregla til að vopnbúast. Við það róaðist maðurinn og gaf sig á vald lögreglu.

Í tilkynningunni segir að aðstæður lögreglumanna voru viðsjárverðar og mikilvægt var að tryggja öryggi þeirra en vægari valdbeitingarúrræði komu ekki að gagni við þessar aðstæður.

Farið var með manninn á sjúkrahús þar sem gert var að sárum hans en að því loknu var hann færður í fangaklefa.  Að yfirheyrslum loknum var hann frjáls ferða sinna. Í tilkynningunni kemur fram að lögregla hafi áður þurft að hafa afskipti af manni þessum vegna ýmissa brota.

Fyrr í dag sagði mbl.is frá því að lögreglan á Ísafirði hafi þurft að vopnbúast vegna manns sem lét ófriðlega í bænum. Lögreglan á Ísafirði hefur ekki viljað tjá sig um það mál fyrr en nú.

Þurftu að grípa til vopna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert